141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

launamál slitastjórna.

[10:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur orðið mikil umræða um laun slitastjórna og sömuleiðis viðskipti þeirra við eigin fyrirtæki. Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon benti á í febrúar 2010 að þetta væru mjög óeðlileg launakjör og hafði mjög stór orð um það og benti á að ríkisvaldið gæti fengið upplýsingar um þessi mál og haft afskipti af þeim sem kröfuhafi, þ.e. í gegnum ríkissjóð sem kröfuhafi og þá sérstaklega Seðlabankann sem er kröfuhafi í öllum föllnu fjármálafyrirtækjunum.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra af hverju ekki hafi verið kallað eftir upplýsingum um þær 16 slitastjórnir sem ekki hefur neitt verið sagt frá. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson spurði ítrekað um þetta í þingmálum en fékk engin svör hjá þáverandi hæstv. ráðherra Árna Páli Árnasyni. Ég velti fyrir mér hvort Samfylkingin sé á móti því að þær upplýsingar komi fram. Ef við skoðum stjórnarsamstarfið hafa það verið hv. þingmenn Vinstri grænna sem hafa ýtt á eftir þessu og haft uppi orð í þessa átt en samfylkingarráðherrarnir hafa ekki brugðist við.

Öllum er ljóst að hægt er að kalla fram þessar upplýsingar. Ríkisstjórnin hefur tækin til þess og því spyr ég hæstv. ráðherra af hverju það er ekki gert. Er það stefna Samfylkingarinnar að svo verði ekki?