141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Enn og aftur er hér verið að greiða atkvæði um kvöldfund. Væntanlega munu þeir sem greiða þessu atkvæði sitt taka þátt í þeim umræðum sem verða í kvöld. Það er að mínu viti orðið nokkuð ljóst hver forgangsmál ríkisstjórnarinnar eru, þau eru hér á þessu blaði. Það er varla hægt að ætlast til þess að fleiri málum verði bætt við þar sem í mesta lagi þrír, fjórir, fimm þingfundadagar eru eftir. Við hljótum þá að horfa hér á þau mál sem ríkisstjórnin ætlar sér að reyna að klára. Þar af leiðandi hlýtur að þurfa að skipuleggja umræðuna í kringum þau.

Ég verð að segja að staðan sem orðin er í þinginu er nokkuð gamalkunn eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson benti á. Það er hins vegar nýtt í sjálfu sér að enginn virðist ætla að taka forustuna í því að leysa þau mál.