141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil leiðrétta þann misskilning sem kom fram hjá hv. þingflokksformanni Framsóknarflokksins að hér væri að finna öll þau mál sem ríkisstjórnin telur að þurfi að koma fram. Svo ég segi það hreint út eru nokkur mál sem við þurfum að ná í gegn vegna þess að ella liggja við ákærur af hálfu erlendra stofnana vegna þess að við höfum ekki staðið við ákveðnar samningsskuldbindingar. Ég mælist því til þess að hv. þingmaður (Gripið fram í.) skoði það með opnum huga.

Þar fyrir utan (Gripið fram í.) skil ég ekkert í þessum kvörtunum í þingsal þar sem er fullt af vösku fólki sem er vant að störfum, bæði til sjávar og sveita, vant árstíðabundnum kúfum í störfum, eins og við sauðburðinn sem hv. þingmaður þekkir og í sjómennsku eins og sá sem hér stendur þekkir. Ég sé ekki að þingmenn þurfi að kvarta undan því að þegar verið er að ljúka þingi komist þeir ekki heim í kvöldmatinn á hverju kvöldi. Svona fólk á bara að finna sér störf einhvers staðar annars staðar ef það getur ekki unnið einhvern tímann [Kliður í þingsal.] fram yfir kvöldmat. Það er bara ræfildómur og ekkert annað eins og ég veit að hv. þingmaður er mér sammála um.