141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að spurt sé eins og þingmaðurinn gerir, hvort ekki sé ástæða til að gera þessa ívilnun varanlega. Því er til að svara að henni var komið á í framhaldi af efnahagshruninu þegar sú staða blasti við að yfir helmingur fyrirtækja í landinu var tæknilega gjaldþrota. Skortur var á lánsfé og eðlilegu starfsumhverfi fyrir fyrirtæki. Því miður skortir enn nokkuð á að unnið hafi verið til fulls á þeim vanda og enn þá er ástæða til að hafa tímaívilnunina í gildi, en við hljótum að binda vonir við að hér verði brátt komið á eðlilegt ástand hvað það varðar. Þess vegna er ekki ástæða til að gera þetta að varanlegri ívilnun.