141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[11:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hefði talið fulla ástæðu hjá nefndinni til að taka það til athugunar. Ég verð svolítið ringluð þegar ég hlusta á stjórnarliða. Stundum er það þannig að atvinnulífið er komið í blússandi gang og allt er hér í lukkunnar velstandi vegna starfa ríkisstjórnarinnar, allt er hér á réttri leið og allir eru við það að ná vopnum sínum, en síðan kemur fram mál sem þetta þar sem við erum augljóslega enn að glíma við afleiðingar efnahagsþrenginganna og virðist ekkert lát þar á. Þess vegna tel ég rétt og sé ekkert því til fyrirstöðu að gera þetta að varanlegri löggjöf, sérstaklega í ljósi þess sem fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofunnar, að fyrirkomulagið hafi ekki í för með sér neinn kostnað fyrir ríkissjóð heldur sé það eingöngu til þess fallið að liðka fyrir í rekstri fyrirtækjanna.