141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[11:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum séð verri mál en þessi í þinginu, reyndar mjög oft. Ég held að þetta sé mál sem við ættum að geta náð góðri sátt um. Það eru alveg réttmætar vangaveltur hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur þegar hún veltir því upp hvort þetta sé eitthvað sem við ættum að festa í stað þess að hafa það til bráðabirgða.

Það er hins vegar afskaplega mikilvægt og tími þingsins þetta kjörtímabil hefði betur farið í það að huga að undirstöðu þjóðfélagsins sem eru fyrirtækin og heimilin í landinu því að við gerum ekki allt sem við viljum gera hér án þess að hafa fjármuni. Verðmætin eru ekki sköpuð af hv. þingmönnum, jafnágætir og þeir nú eru alla jafnan, verðmætin eru sköpuð í atvinnulífinu. Þá þurfum við að sjá til þess að þau séu í því umhverfi sem gerir þeim kleift að vaxa og dafna. Skattumhverfið er sannarlega lykilmál í því efni og við hljótum að fagna því þegar hæstv. ríkisstjórn sýnir þó þann skilning sem fram kemur í þessu frumvarpi. Ég vonast til þess og trúi því að það verði góð sátt og samstaða um málið í þinginu. Það er ekki sérstaklega pappírsfrekt en það getur munað miklu fyrir fyrirtækin í landinu.

Rekstrarumhverfi fyrirtækja hefur verið mjög erfitt. Hér er falinn vandi eða í það minnsta fer ekki mikið fyrir honum. Hann skapast vegna skekktrar samkeppnisstöðu og skekkts umhverfis, gjaldeyrishafta og því lengur sem við erum með gjaldeyrishöft því lengur er hér svikalogn. Með hverjum degi sem líður skekkjum við eðlilegt umhverfi efnahagslífsins og mun það koma niður á okkur öllum fyrr en seinna.

Í stuttu máli er ég ánægður með frumvarpið. Það er til bóta og ég hvet hv þingmenn til að sameinast um að gera það að lögum sem allra fyrst.