141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[11:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við skoðum tölur og kannanir kemur í ljós að mikið af fatnaði og skóm, ég tala nú ekki um ungbarnaföt, er keypt í útlöndum. Verslun sem heitir H&M er með 30% markaðshlutdeild á Íslandi en hún er ekki á Íslandi. Verslunin er með 30% markaðshlutdeild í ákveðnum vöruflokkum þótt hún sé ekki á Íslandi. Hún er samt sem áður með svo mikla markaðshlutdeild.

Hverjir eru það sem kaupa í útlöndum? Það er fólk sem er með meiri tekjur. Þeir sem kaupa mest á Íslandi er fólk sem er með lágar tekjur. Hvers vegna? Vegna þess að það fólk hefur ekki efni á að fara til útlanda. Við erum búin að búa til fyrirkomulag þar sem fólk sem er með minnstar tekjurnar verður að greiða hærra verð fyrir vörurnar vegna þess að það kemst ekki til útlanda. Það eru ekki bara föt og annað slíkt, við þurfum ekki annað en að fara í Fríhöfnina til að sjá muninn á verðlaginu. Þar erum við með risakomuhöfn sem ég hef ekki séð annars staðar, ekki í neinu öðru landi. Það getur verið að það sé slík fríhöfn í öðru landi en ég hef hvergi séð hana. Þar fá þeir sem ferðast hlutina mjög ódýrt á meðan aðrir verða að gera sér það að góðu að fara í verslanir hér, hvort sem það er ríkisverslun eða annað slíkt, og kaupa hluti eins og áfengi, tóbak og rafmagnsvörur, sætindi og allt milli himins og jarðar á miklu hærra verði.

Það minnir svolítið á „nomenklatura“ í Sovétríkjunum sálugu. Þeir sem hafa það betra fá alls konar fríðindi. Það er í mínum huga forgangsmál, það er ekkert nýtt, ég er búinn að tala fyrir því frá því að ég byrjaði í stjórnmálum. Stigin hafa verið hænuskref í rétta átt en betur má ef duga skal og það er engan veginn (Forseti hringir.) ásættanlegt að við séum með sérstaka fátækraskatta hér á landi. (Forseti hringir.) En vörugjaldakerfið eins og það er, skatt- og gjaldakerfið, er fátækraskattkerfi.