141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[11:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt með síðari breytingum sem fjallar í raun um dreifingu gjalddaga. Tilgangur þessa frumvarps er að bregðast tímabundið, það er lykilatriði að þetta er tímabundið, við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja. Þetta mál er ekki nýtt að því leyti að sams konar mál var lagt fram á árinu 2011 og á árinu 2012. Er þetta hluti af aðgerðum, sem samstaða hefur verið um hér í þinginu, sem stjórnvöld hafa gripið til vegna greiðsluerfiðleika fyrirtækja. Lagt er upp með það að fjölga hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalda þannig að þeim verði dreift á tvo gjalddaga.

Frumvarpið hefur farið í gegnum þrjár umræður hér á þinginu, á árinu 2011, aftur á árinu 2012 og aftur núna. Á þessu kjörtímabili er því ekki að undra að okkur finnist við stundum vera að gera sama hlutinn aftur og aftur, það er einfaldlega vegna þess að við erum að gera sama hlutinn aftur og aftur. Þannig er þetta nú.

Af því að fram fór löng umræða áðan þar sem verið var að greiða atkvæði um það hversu nauðsynlegt væri að starfa hér fram á nótt og allan sólarhringinn fram að þinglokum þá er þetta dæmi um mál sem er algjörlega fráleitt að fara með á þennan hátt í gegnum þingið. Það hefði verið nær í upphafi að játa að við stæðum frammi fyrir ákveðnum erfiðleikum í samfélagi okkar um nokkurra ára skeið, reyna að afmarka það tímaskeið við kannski þrjú ár og haga störfum okkar hér í þinginu eftir því. Við þurfum að miða við það markmið að ná okkur upp úr efnahagsþrengingunum og viðurkenna að þær eru ekki bara í sex mánaða hollum o.s.frv.

Í frumvarpinu er lagt til að frestur gjaldenda til að skila árlegum aðflutnings- og vörugjöldum vegna uppgjörstímabila ársins 2013 verði lengdur með fjölgun gjalddaga en þegar við fjöllum um aðflutningsgjöld eigum við við tolla og aðra skatta og gjöld sem lögð eru á við innflutning, þar með talinn virðisaukaskatt. Greiðsludreifing vegna aðflutningsgjalda verður þannig, eftir að þetta frumvarp verður samþykkt, að helmingur gjaldanna er greiddur á hefðbundnum gjalddaga en hinn helmingurinn frestast til fimmta dags næsta mánaðar. Hins vegar verður greiðsludreifingin vegna vörugjaldanna þannig að helmingur gjaldanna verður greiddur á hefðbundnum gjalddaga en hinn helmingurinn frestast um einn mánuð. Þá er í frumvarpinu að auki gert ráð fyrir að þetta fyrirkomulag skerði ekki heimild til að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi verið skilað.

Þetta eru allt saman atriði sem eru ágæt og það er ágætt að skilningur sé fyrir því hjá stjórnvöldum og hjá meiri hlutanum sem leggur nú fram þetta mál, stendur að þessu máli, að atvinnulífið þurfi að ná vopnum sínum og þurfi að ná að halda fyrirtækjum í rekstri og þurfi að ráða við þá gríðarlegu skattbyrði sem á þau er lögð. Það er gott að samstaða er um að grípa til aðgerða, meðal annars þessara, í því skyni að liðka fyrir fyrirtækjarekstri. En ég gagnrýni að það sé ekki gert á heildstæðan hátt og ég tek þetta mál sem dæmi vegna þess að þetta er ekki eina málið sem við höfum horft upp á á þessu þingi sem fer með þessum hætti hér í gegn.

Við höfum verið að fjalla um mál eins og endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við eigið húsnæði, sem hefur farið í gegnum þingið árlega, og ég kallaði eftir því í umræðu um það mál að við færum yfir það hvort við ættum að taka umræðu um það að gera þær heimildir varanlegar. Í það var vel tekið, að við skyldum nú gera það, en síðan hefur ekkert af því frést. Við höfum ekki tekið þá umræðu upp og ráðherrann hefur ekki beitt sér fyrir að það væri gert.

Í þessu máli erum við einfaldlega að tala um breytingar á gjalddögum og það er athyglisvert að lesa umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, þ.e. fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins. Þar kemur fram að álögð aðflutningsgjöld og vörugjöld á þessu ári muni ekki skerðast vegna þessa frá því sem gert var ráð fyrir enda sé hér einungis um að ræða tilfærslu í innheimtu milli tímabila. Allt í lagi, tekjur ríkisins minnka ekki vegna þessara aðgerða.

Síðan kemur hér fram að skil á skatti og þessum gjöldum ættu jafnvel að geta orðið betri vegna þessa úrræðis. Er það ekki frábært, er það ekki eitthvað sem við öll viljum? Síðan kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að ekki verði séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð. Hér er enn einn kosturinn við þetta mál, þetta kostar ríkissjóð ekki neitt, þetta leiðir til þess, miðað við mat fjárlagaskrifstofu fjárlaga- og efnahagsmálaráðuneytisins, að skil á gjöldum í ríkissjóð verði betri og síðan auðveldar þetta fyrirtækjum rekstur. Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu að mál sem þetta, í stað þess að flytja það hér ár eftir ár í óbreyttri mynd, nema hvað varðar ártalið, verði einfaldlega staðfest varanlega inn í löggjöf okkar þar sem þessir þrír kostir koma saman.

Ég ætla engu að síður ekki að vera neitt sérstaklega neikvæð. Ég fagna því að menn standi saman í nefndinni, allir sem einn, um þetta mál. Ég fagna því að þarna birtist skilningur, meira að segja þingmanna Vinstri grænna, á því að atvinnulífið haldist gangandi og þurfi að fá einhverja aðstoð. Ég fagna því jafnframt að hv. þm. Helgi Hjörvar, sem mælti fyrir þessu nefndaráliti, viðurkenndi að það væri nú ekki allt frábært sem ríkisstjórnin væri búin að gera, hér í andsvarinu við mig, og enn væru þær aðstæður uppi í samfélagi okkar að grípa þyrfti til aðgerða vegna atvinnulífsins. Ég held að þetta sé tímamótayfirlýsing vegna þess að mér finnst stundum, nú þegar nær dregur kosningum, að menn tali þannig að hér sé allt fallið í ljúfa löð og atvinnulífið þurfi þess vegna ekki á neinum sérstökum skilningi að halda.

Ég er ósammála því og ég fagna því að í þessu máli kemur fram bæði skilningur og vilji af hálfu ríkisstjórnarflokkanna til að bæta úr — og megi þetta litla skref verða til þess að við höldum áfram á þessari braut og getum þá farið að tala um atvinnumál í þessum sal og tala um aðgerðir sem miða að því að styrkja innviði samfélagsins á þá leið að fyrirtæki í landinu, sérstaklega þau litlu og meðalstóru sem veita svo mörgum vinnu allt í kringum landið, geti náð vopnum sínum. Ég fagna þessum yfirlýsingum og ég fagna þeirri afstöðu sem hér birtist.

Það er síðan allt annar handleggur og önnur saga, sem við ræðum væntanlega síðar í dag, umgjörðin hvað varðar skatta á fyrirtæki almennt og þá sérstaklega hvað varðar vörugjöldin. Umhverfið þar er afskaplega flókið og varla fyrir nokkurn mann að skilja hvað átt er við þegar verið er að gera breytingar á löggjöf er varðar vörugjöld. Ég vonast til þess að á komandi kjörtímabili verði þær breytingar gerðar að tekið verði verulega til í þessum frumskógi, ekki er vanþörf á, þannig að við getum skapað atvinnulífinu þau skilyrði að það geti vaxið, náð vopnum sínum, boðið viðskiptavinum sínum betri kjör og fjölgað starfsmönnum. Það er það sem þetta snýst allt um. Og sé það liður í því að einfalda rekstur fyrirtækja með aðgerðum sem þeim sem hér eru lagðar til, sem hafa það að markmiði að koma til móts við fyrirtæki sem eru í greiðsluerfiðleikum, hafa það að markmiði að aðstoða þá sem ekki gætu ella greitt skatta og skyldur á réttum tíma og eru þeim kostum búnar að velta ekki neinum kostnaði yfir á ríkissjóð, heldur þvert á móti stuðla að því að skil á opinberum gjöldum gætu orðið betri, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að við tökum einfaldlega tillögu sem þessa og setjum hana varanlega inn í löggjöf okkar.

Ég tel að við séum ekki að nota tímann neitt sérstaklega vel, þvert á þær fullyrðingar sem settar voru fram fyrr í dag. Tíma okkar gæti verið betur varið hefðum við áttað okkur á því á sínum tíma, árið 2011 að það gæti nú kannski verið sniðugt, í ljósi þess að hér erum við með úrræði sem kostar ríkissjóð ekki neitt og er ekki til neins nema bóta, að lögfesta ákvæði sem þessi varanlega.

Fram kom athyglisverð yfirlýsing í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar áðan varðandi viðskiptastefnu. Ég fagna því að menn hafa verið að ræða það og vonast til að menn hafi rætt það eitthvað í efnahags- og viðskiptanefnd, þá tillögu, vegna þess að ég held að eitt það mikilvægasta sem við getum gert, og sérstaklega í þeirri nefnd, varðandi íslenskt atvinnulíf sé einmitt að horfa til þess hvernig við getum einfaldað og bætt umhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja með það að markmiði að auka viðskipti, að efla atvinnulífið, að skapa þau skilyrði að fyrirtækin í landinu geti staðið styrkari fótum, geti staðið skil á sköttum sínum og skyldum til ríkissjóðs og geti svo í kjölfarið eflt atvinnulífið á þann hátt að bjóða viðskiptavinum sínum upp á betri kjör og fjölgað störfum. Það er mikilvægt og það er eitthvað sem við öll ættum að geta verið sammála um, sérstaklega í ljósi þess skilnings sem birtist okkur í þessu máli, skilnings jafnvel Vinstri grænna á því að atvinnulífið þurfi á skilningi og í einhverjum tilfellum ívilnunum af hálfu ríkisvaldsins að halda.

Ég tel ákveðin tímamót gengin í garð. Hingað til höfum við, þegar við erum að tala um atvinnulífið og umhverfi þess, aðallega verið að tala um skattahækkanir. Þá höfum við aðallega verið að tala um það hvernig leggja mætti fleiri nýja og hærri skatta á atvinnulífið. Við þekkjum það öll, höfum séð það í gegnum allt þetta kjörtímabil, hvaða áhrif það hefur á rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hækkanir á tryggingagjaldinu, svik á loforðum um það, svik á samningum um að lækka tryggingagjaldið — hvaða afleiðingar hefur það haft á íslenskt atvinnulíf? Við þekkjum það. Við höfum heyrt hér í þinginu yfirlýsingar frá Samtökum atvinnulífsins, við höfum heyrt í og hitt fjölmarga atvinnurekendur sem hafa átt í erfiðleikum. Við þekkjum hvaða afleiðingar það hefur þegar ekki hefur verið staðið við handsalaða og undirskrifaða samninga varðandi lækkanir, sérstaklega á tryggingagjaldinu.

Frú forseti. Ég er í sjálfu sér ekki á móti þessu máli. Mig langaði bara að velta þessum sjónarmiðum upp til þess að við getum kannski farið að hugsa til lengri tíma í einu, til þess að við getum kannski farið að nota tímann betur. Ég vonast svo sannarlega til þess, frú forseti, að það sé hér með komið fram að við öll, sama í hvaða flokki við erum, ætlum nú að vinna að því að bæta umhverfi fyrirtækja í landinu og liðka fyrir því að atvinnulífið nái að standa styrkari fótum og festa sig í sessi.