141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[11:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er einhver óvissa varðandi dagskrá fundarins?

Ég er sannfærð um að hv. þm. Helgi Hjörvar mundi eflaust vilja leggja til ýmislegt annað en þetta varðandi vörugjöldin. Það sem mér hefur fundist svo áhugavert varðandi gögnin sem ég hef verið að kynna mér og hafði einmitt hug á að flytja ræðu um í fyrramálið, sem var frestað áðan, en get kannski komið því að hér, er að ýmsir stuðningsmenn og þingmenn Samfylkingarinnar hafa bent á að það sé rétt að viðhalda vörugjöldum á vörum eins og sykri, áfengi, tóbaki og olíu til þess að reyna að stýra neyslu, til þess að hafa bein áhrif á neyslu en vörugjöld á öðrum vörum eins og byggingarvörum eða heimilistækjum ætti að afnema.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki sé rétt að það megi skilja það svo og hvort þingmaðurinn sé ekki sammála þeirri afstöðu að það sé ansi sárt að helstu breytingarnar sem koma hér fram varðandi vörugjöldin virðist snúa að því sem skilar ekki þeim árangri sem stefnt er að, að reyna að draga úr neyslu á sykruðum vörum og tryggja betri heilsu þjóðarinnar. Hefði hv. þingmaður ekki talið að það væri ýmislegt annað sem tengdist vörugjöldunum sem hefði átt meira erindi hingað inn við þinglok en akkúrat breytingar varðandi sykur og sætuefni og færslu hunangs á milli flokka?