141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[11:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að geyma mér að tjá mig um þær æfingar sem voru gerðar á dagskránni hér og ræða það við þingflokksformann þegar sá tími kemur.

Við ræðum um breytingar á tollalögum, lög um vörugjöld og lög um virðisaukaskatt. Ég tek undir það sem fram hefur komið hér að full ástæða sé til þess að velta því upp hvort ekki sé full þörf á að gera þetta varanlegra, ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafa haft fjögur ár til að snúa hjólum atvinnulífsins við og gera umhverfi fyrirtækja betra en hafa brugðist í því hlutverki sínu. Maður veltir því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að lengja aðeins í þessu miðað við það sem maður sér úti í samfélaginu og þær tölur sem berast þar sem töluvert virðist vera í að hjól atvinnulífsins fari að snúast, nema ný ríkisstjórn þar sem núverandi stjórnarflokkar munu ekki ráða för spýti ærlega í lófana. Þá verður kannski hægt að taka upp gamla fyrirkomulagið.

Það er athyglisvert að ein röksemdanna fyrir því að halda þessu áfram er einmitt sú að verið sé að bregðast við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja. Þá velta menn fyrir sér, eins og ég sagði áðan, hvers vegna staða fyrirtækjanna er enn slík. Er ekki búið að fara í aðgerðir til að létta undir með fyrirtækjunum þannig að rekstur þeirra geti orðið auðveldari og betri svo að fyrirtækin geti ráðið fleira starfsfólk, skilað meiri framlegð og þar af leiðandi skilað meiru í ríkissjóð í formi skatta, bæði frá fyrirtækinu sjálfu og að sjálfsögðu þeim er þiggja þar laun? Það er búið að benda á erfiðleika fyrirtækja mjög lengi, að starfsumhverfi þeirra sé háð mikilli óvissu. Sú óvissa er fyrst og fremst sköpuð af stjórnvöldum í dag, þ.e. miklar breytingar og hræringar hafa verið á rekstrarumhverfinu, skattbreytingar og ýmislegt þess háttar sem stjórnvöld hafa einhvern veginn í ósköpunum lagt sig fram um að gera sem óljósast og flóknast.

Við sjáum sem dæmi að fyrirtæki sem starfa í hinum hefðbundnu atvinnugreinum, eins og sjávarútvegi, hafa oftar en ekki þurft að bregðast mjög harkalega við þegar stjórnvöld hafa tekið ákvarðanir eða gert samkomulag sem ekki er svo staðið við. Ég nefni þar raforkuskattinn svokallaða á stóriðjuna og í raun mætti fleira telja.

Það var athyglisvert að hlusta á erindi sem flutt voru á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins fyrir skömmu, í gær eða fyrradag. Þar lýstu aðilar með lítil eða meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi, með um það bil 30 starfsmenn, því hvernig rekstrarumhverfi þeirra er eftir að hið sérstaka veiðigjald var lagt á. Það hefði verið gott fyrir hvern einasta þingmann að sitja og hlusta á lýsingarnar á því umhverfi sem þessi fyrirtæki búa við í dag. Staðan er jafnvel sú að 95–100% þess sem fyrirtækið skilar í hagnað eða afgang fer í kostnað til ríkisins, sérstaklega vegna veiðigjaldsins sem bættist náttúrlega ofan á annað og jók þar af leiðandi vandamálið.

Margir hafa reynt að bregðast við því umhverfi sem ég er að lýsa með tillögum í þinginu. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa að minnsta kosti tvisvar, ef ég man rétt, lagt fram þingmál um sókn í atvinnumálum þar sem ákveðnar aðgerðir eru lagðar til út af rekstrarumhverfinu, þ.e. því umhverfi sem fyrirtækin í landinu búa við. Auðvitað eru þessar tillögur settar fram til þess að fækka fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum sem þurfa á úrræðum eins og eru í þessu frumvarpi að halda. Best væri auðvitað að við þyrftum ekki að vera með mál sem þetta, en staðreyndin er sú að full þörf er á því út af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar meðal annars. Grunnurinn er að sjálfsögðu sá að hér fór fjármálakerfið á hliðina og mörg góð fyrirtæki í kjölfarið og önnur lentu í erfiðleikum og það er óásættanlegt að ekki hafi verið betur brugðist við á þeim tíma sem liðinn er.

Ég nefndi sjávarútveginn áðan. Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á mörg önnur fyrirtæki, fyrirtæki sem þjónusta hefðbundnar atvinnugreinar sem hafa jafnvel orðið fyrir tjóni því að sum fyrirtæki hafa ekki getað staðið í skilum eða þurft að draga saman fjárfestingar og kaup á þjónustu og annað en sem betur fer hafa önnur getað brugðist við með því að fara í sókn erlendis, þ.e. selt vörur sínar, framleiðslu og hugvit erlendis.

Meginmarkmið okkar hlýtur að vera að ná utan um efnahagsmálin, ná utan um stöðu fyrirtækjanna og heimilanna þannig að þessar grunnstoðir efnahagslífsins skili sem mestum arði og þar af leiðandi mestri veltu í samfélaginu og styrki þar með tekjur ríkissjóðs sem stendur svo undir þeim hlutverkum sem hann hefur gagnvart velferðarkerfi, öryggismálum og öllu slíku. Vandinn er sá að við ræðum frumvarp sem á að létta á greiðsluörðugleikum fyrirtækja án þess að ráðist sé í raun að grunnvandanum, þ.e. umhverfinu sem fyrirtækin búa við.

Þeirri þingsályktunartillögu sem ég nefndi áðan, sem þingmenn Framsóknarflokksins fluttu, er skipt niður í 11 kafla þar sem ítarlega er farið yfir tillögur — ég ítreka að þetta eru tillögur — varðandi ýmsar atvinnugreinar og að sjálfsögðu heildarmyndina. Við höfum lagt áherslu á að fjármálastofnanir sem sinna skuldameðferðum lítilla og meðalstórra fyrirtækja hraði eins mikið og kostur er þeirri vinnu því að þessi fyrirtæki þurfa að komast í það stand að geta rekið sig sjálf, fjölgað störfum og skilað hagnaði. Það kann að vera að frumvarpið sem hér um ræðir, um að bregðast tímabundið við, sé liður í því að flýta þessu ferli og þá er það að sjálfsögðu mjög gott mál. Frumvarpið er í sjálfu sér hið besta mál en ástæðan fyrir því að það er lagt fram veldur manni áhyggjum, þ.e. hversu illa hefur gengið að koma hlutunum á rétt ról.

Við höfum líka lagt til að skipaður verði starfshópur hagsmunaaðila og stjórnvalda til að fara yfir skattumhverfi fyrirtækja því að athugasemdir sem við fáum frá fyrirtækjum sem eru að reyna að standa vel að rekstri sínum, fyrirtækjum sem eru sum í greiðsluerfiðleikum í dag eins og talað er um í frumvarpinu en geta gert betur, eru þær að skattumhverfið sé of neikvætt til að hægt sé að fara af stað af fullum krafti. Því er það tillaga okkar að hagsmunaaðilar og ríkisvald setjist niður til að skoða hvaða leiðir eru færar til að bæta þar úr. Allt miðar þetta að sjálfsögðu að því að tryggja samkeppnishæfi Íslands þannig að við getum keppt við aðrar þjóðir.

Ísland á fjölmörg tækifæri og er ekki loku fyrir það skotið að sú saga sem við þekkjum í viðskiptum varðandi helstu viðskiptalönd og annað kunni að breytast eftir því hvar hagvöxtur og samdráttur verður í heiminum. Við hljótum að sækja með afurðir okkar þangað sem best verð fæst fyrir þær, hvort sem það er á Ameríkumarkaði, Evrópumarkaði eða Asíumarkaði. Þar af leiðandi þurfum við að vera með samkeppnishæft atvinnulíf. Því fleiri fyrirtæki sem framleiða vörur, bæði til útflutnings og til neyslu innanlands, því betra.

Við höfum líka bent á stórkostleg tækifæri, að okkar mati, í íslenskum landbúnaði á næstu árum og höfum þar af leiðandi lagt fram þingsályktunartillögu um hvernig efla megi hér matvælaframleiðslu. Sama gildir að sjálfsögðu um bændur og þá sem eiga fyrirtæki sem framleiða vörur. Þeir þurfa að fá grunn til að standa á og kann því að vera að þetta frumvarp komi í einhverjum tilfellum að góðum notum í þeirri atvinnugrein eins og mörgum öðrum.

Við höfum haft miklar áhyggjur af áhrifum gjaldeyrishaftanna en að sama skapi eru margar hliðar á því máli, en almennt eru menn sammála um að þau þurfi að fara sem fyrst. Þau verða að sjálfsögðu ekki tekin af meðan einhver hætta er á að héðan muni streyma út fjármagn sem setji efnahagslíf landsins á hliðina. Það er ekki í boði og það er ekki að ræða að slíkt verði gert. Þeim sem eiga þá fjármuni og vilja leita með þá úr landi verður gert að fara eftir ákveðnum reglum sem verða væntanlega settar af Alþingi. Ég vona að víðtæk sátt náist um það því að við hljótum öll að bera hagsmuni landsins fyrir brjósti.

Við höfum líka talað um að hlutabréfamarkaðurinn verði endurreistur og að innleiða aftur skattafslátt vegna hlutabréfakaupa. Það er liður í því að efla hlutabréfamarkaðinn þannig að þeir sem treysta sér til og hafa til þess færi geti þá keypt hlutabréf, það sé einhver hvati til þess því að það er mikilvægt fyrir okkur að sá markaður sé mjög virkur.

Síðan höfum við lagt til að samskipti stjórnvalda og atvinnulífsins verði endurskoðuð eftir atvikum með sérstökum sáttmála því að það er mjög mikilvægt að atvinnulíf og stjórnvöld spili vel saman. Við höfum reyndar, og það kemur líka fram í þingsályktunartillögunni, þar sem við fjöllum um vinnumarkaðsaðgerðir og annað, lagt mikla áherslu á að samband aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda verði bætt til muna. Það er mikilvægt að slíkt samtal fari fram sem allra fyrst, í það minnsta strax eftir kosningar, ekki seinna, til að ná samkomulagi um hvert skuli stefna. Þar þarf að horfa til nokkurra ára þar sem aðilar skuldbinda sig til þess að vinna að ákveðinni stefnu, sameiginlegum markmiðum. Ég ætla að leyfa mér að segja að slík áætlun þyrfti að ná til fimm, sex ára ásamt sýn til lengri tíma, 10–15 ára, þar sem reynt yrði að gera grein fyrir þróuninni. Þetta held ég að sé mikilvægt því að þetta er í rauninni það sem menn gera þegar þeir reyna að reka fyrirtæki og heimili, þ.e. að horfa með þessum hætti til framtíðar ef möguleiki er á.

Við höfum líka lagt til að lög um einkahlutafélög og samvinnufélög verði skoðuð og teljum að mikil sóknarfæri séu í samvinnuforminu eins og staðan er. Það kann að vera kostur fyrir fyrirtæki sem eiga í einhverjum erfiðleikum í dag, fyrirtæki í svipuðum geira, eins og þetta frumvarp vísar til, að geta komið sér saman um og myndað einhvers konar samvinnufélag sem styrkti hag þeirra allra. Þetta er að sjálfsögðu nokkuð sem er fyrst og fremst áhugavert að skoða á þessum tímapunkti. Við munum áfram leggja áherslu á að þetta félagaform, þetta rekstrarform, verði skoðað mjög vandlega því að það er ákjósanlegt að fólk vinni saman ef það á sameiginlega framtíðarsýn og hagsmuni sem þarf að verja eða þegar sækja þarf fram.

Eins og ég nefndi áðan er svolítið hlægilegt, þó að það sé samt ekkert fyndið, að frumvarp þetta sé í raun staðfesting á vandræðagangi stjórnvalda síðastliðin fjögur ár en þannig er það og nú kemur það enn og aftur inn í þingið. Þegar við framsóknarmenn lögðum fram tillögu til þingsályktunar um sókn í atvinnumálum í september síðastliðnum var fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu í kringum 12% en hefði átt að vera í kringum 20%. Það var því alveg ljóst að okkar mati að endurskoða þyrfti og breyta þeim reglum sem fyrirtæki búa almennt við til þess að ná fram krafti í atvinnulífið og fækka þeim fyrirtækjum sem þurfa á frumvörpum eins og því sem um ræðir að halda.

Skattbreytingar sem hafa verið gerðar hafa að mati þeirra sem stjórna fyrirtækjum, mörgum í það minnsta, orðið til þess að flækja hlutina, ekki til þess að greiða úr þeim. Ofan á bætist óvissa um frekari skattbreytingar sem er helsti óvissuþátturinn í starfi fyrirtækja. Að mínu mati var athyglisvert að heyra það á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins að gjaldeyrishöftin og óvissan, þá aðallega óvissa er lýtur að stjórnvöldum, gerði að verkum að fjárfesting og frekari sókn er ekki meiri en hún er. Það er alveg ljóst líka að tækifærin eru mörg og hugur í þeim sem stýra fyrirtækjunum í landinu og eru að reyna að fjölga störfum. Víða er hægt að sjá menn iða í skinninu eftir að komast í umhverfi þar sem eru hvatar til að gera slíkt.

Við framsóknarmenn lögðum til í þingsályktunartillögu okkar að stjórnvöld ættu að beita sér fyrir því að farið yrði í beina erlenda fjárfestingu og að þau yrðu að móta sér stefnu um hvernig uppbygging ætti að vera. Við tölum líka um endurskoðun á því umhverfi varðandi ívilnanir og annað og að stutt verði dyggilega við verkefni sem eru nú þegar í athugun um uppbyggingu á mannauðsfrekum iðnaði. Það er því að mörgu leyti ánægjulegt að í gær skyldum við fjalla um fjárfestingu í orkufrekum iðnaði, fjárfestingu á Bakka við Húsavík. Fram komu ýmsar vangaveltur og athugasemdir í ræðum en ljóst er að með þessu eru stjórnvöld að gefa ákveðinn tón þó að fullseint komi og vangaveltur um það hvers vegna sá tónn hefði ekki verið gefinn fyrr og til annarra verkefna voru því eðlilegar. Það er mikilvægt að við klárum þetta til að Þingeyjarsýslur og þeir sem eru í nágrenni og í rauninni á Norðurlandi öllu geti notið þeirra verkefna sem þarna munu verða og þjóðarbúið að sjálfsögðu svo í framhaldinu.

Virðulegi forseti. Lagafrumvarp það sem við ræðum er ekki stórt í sniðum og innihald þess er í rauninni jákvætt en það er grunnurinn að því að það er lagt fram sem veldur áhyggjum, ekki síst í ljósi þess að skortur virðist vera að á þeirri sýn sem þarf til svo að frumvarpið þurfi ekki enn og aftur að koma til þingsins og framlengja þurfi vinnuna við það aftur og aftur. Það er nokkuð sem mjög margir hér inni stefna á að breyta eftir næstu kosningar, fái þeir tækifæri til þess.

Ég hef ekki enn nefnt stöðu heimilanna í ræðu minni. Heimilin tengjast þessu á þann hátt að mjög margir sem reka heimili vinna hjá fyrirtækjum sem eru í erfiðleikum. Fólk hefur þurft að taka á sig styttri vinnutíma, fólki hefur verið sagt upp en skuldir þess fara ekki neitt á meðan og hafa jafnvel margfaldast vegna aðgerðaleysis út af verðtryggingu og hækkun verðbólgu. Það hangir að sjálfsögðu saman að búa efnahagslífið þannig úr garði að verðbólgan leiki ekki lausum hala. Því höfum við framsóknarmenn lagt áherslu á hér í þinginu að sett verði lög er takmarki áhrif verðtryggingar og síðan verði farið í að finna leiðir til þess að afnema hana af nýjum lánum sem eru veitt. Við gerum okkur líka grein fyrir því að það er annar handleggur að fara afturvirkt í slík mál, til þess þarf annars konar aðgerðir og samráð. Þess vegna höfum við lagt áherslu á leiðréttingar.

Heimilin eru stór og mikilvægur hluti af efnahagslífi landsins ekki síður en fyrirtækin. Allt þarf þetta að haldast í hendur til þess að við getum horft fram á við. Skuldlítil heimili velta meiru í samfélaginu sem bætir um leið stöðu fyrirtækjanna sem fjölga þá vonandi störfum, ráða til sín fleira fólk. Þar með yrði sá hringur sem er svo mikilvægur í öllum samfélögum orðinn jákvæður en ekki neikvæður eins og hann er í dag. Við munum vonandi í framtíðinni ekki þurfa að bregðast við með frumvörpum sem þessu þar sem er verið að vinna eins konar slökkvistarf en það er ekki ráðist að upptökum eldsins, þ.e. rót vandans, heldur reynt að slökkva óskipulega hér og þar.