141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[12:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum mál sem er kannski ekki mikið að efni og við höfum áður fjallað um í þinginu en í senn er það mjög mikilvægt og því full ástæða til að gera því góð skil. Ég verð þó að byrja aðeins á því að fara yfir stöðuna í þinginu og dagskrána sem liggur fyrir í dag.

Við erum með mál til umræðu sem verður klárlega nokkuð mikil sátt um að afgreiða. Þannig er um nokkuð mörg mál sem liggja fyrir þinginu, þau ættu að geta náð áfram án mikilla átaka og málin eru mjög mikilvæg. Ég get til dæmis nefnt málið sem hv. atvinnuveganefnd fjallaði um í morgun og tilheyrir fyrirhuguðum framkvæmdum á Bakka. Það er mjög mikilvægt mál sem virðist reyndar vera meiri ágreiningur um í stjórnarflokkunum en hjá stjórnarandstöðunni. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, mun geta treyst á stuðning okkar sjálfstæðismanna, og væntanlega framsóknarmanna líka, í málinu þannig að andstaða innan meirihlutaflokkanna mun ekki duga til að koma í veg fyrir að það ágætismál verði afgreitt.

Virðulegi forseti. Það er í raun mjög pínlegt að þingið skuli við aðstæður sem þessar, þegar stutt er til þingloka og kosningabarátta fram undan, eyða tíma okkar eins og raun ber vitni. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að reyna að koma skikki á það. Ég vil taka undir með einum stjórnarþingmanni sem ég hitti á ganginum áðan. Við tókum umræðu um að svo virðist sem dálítið reynsluleysi ráði för. Hinir reyndari þingmenn í stjórnarliðinu hafa hina hreinlega ekki undir í því að koma á einhverju skipulagi á þessum síðustu dögum þannig að þingið geti lokið þeim málum sem um semst. Slíkt er auðvitað til baga, ekki síst þegar horft er til þess að mikið ákall hefur verið um endurnýjun. Það sýnir okkur kannski líka mikilvægi þess að hafa ákveðna reynslu og að halda í þær hefðir sem hafa skapast í gegnum tíðina á lokadögum þingsins, sem og mikilvægi þess að forustumenn þingflokkanna setjist niður og komi sér saman um hvernig eigi að ljúka þingstörfum. Meðan boðið er upp á þau vinnubrögð tökum við auðvitað þann tíma sem við þurfum til að ræða jafnvel mál eins og þetta sem að öllu jöfnu þyrfti ekki að taka langan tíma en er sjálfsagt að reifa. Málið er gríðarlega mikilvægt og kannski mikilvægara en virðist við fyrstu sýn.

Við búum við mikinn vörugjaldafrumskóg á Íslandi sem er í raun mjög til ama fyrir alla innflutningsverslun í landinu. Við erum sterk útflutningsþjóð og flytjum mikilvægar afurðir til útlanda og má þar náttúrleg sérstaklega nefna fiskinn okkar, sjávarafurðir okkar, og álið sem skipa þar stærstan sess og einnig á ferðamannaiðnaðurinn vaxandi hlut í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Þrátt fyrir að við höfum þær öflugu útflutningsgreinar, sjávarútveginn og hið náttúruvæna ál, byggjum við mikið á innflutningsverslun. Það liggur alveg fyrir að þar verður að taka til hendinni og fara í gagngera skoðun á þeim tolla- og vörugjaldafrumskógi sem dregur mikinn mátt úr versluninni sem er fyrir á litlum markaði og gerir henni erfiðara fyrir að sækja samkeppnishæf verð að öllu leyti til erlendra framleiðenda.

Virðulegi forseti. Við getum tekið dæmi um fatnað sem er mikið til framleiddur í Asíu og Kína. Vegna smæðar markaðarins á þeim vettvangi geta íslenskir innflytjendur, eða jafnvel framleiðendur, í undantekningartilfellum látið framleiða fyrir sig þar eða flutt beint inn frá þeim löndum vegna þess magns sem þarf að taka í hvert skipti þegar keypt er af stærri verksmiðjum. Það er því undantekning á þeim vettvangi, hvað varðar fatnað og margar aðrar vörur, að vörurnar komi beint frá framleiðendum. Þær koma gjarnan í gegnum vörumerki í Evrópu sem láta framleiða merkin fyrir sig austur frá.

Vegna smæðar markaðarins náum við sjaldan, og í undantekningartilfellum, því magni hjá Evrópubirgjum sem dugar til að vörur okkar séu meðhöndlaðar eins og er til dæmis gert í tilfelli Noregs þar sem þær fara á svokallaðan frílager. Sendingarnar koma, sérstaklega frá Kína t.d., til Evrópu og því sem er ætlað að fara á markað í Noregi fer inn á frílager svo ekki er borgaður tollur við innkomu í landið sem framleiðandinn eða vörumerkið er að flytja inn til. Af því að við erum smá fylgir því oft mikill kostnaður fyrir Evrópufyrirtækið að meðhöndla Ísland eins og því búum við við að vörur okkar, fatnaður sem við kaupum af evrópskum vörumerkjum, bera toll þegar þær koma til Evrópu. Það er algengt að sá tollur sé á bilinu 8–12%, jafnvel upp í 15% í einhverjum tilfellum. Þá eru íslenskir neytendur og innflytjendur farnir að greiða þann toll þegar þeir fá vöruna til sín.

Sú vara er síðan endurtolluð á Íslandi upp að 15%. Við erum með tvöfaldan toll, annars vegar þegar varan kemur til Evrópu og hins vegar þegar hún er flutt til Íslands. Það er kannski helsta ástæðan fyrir því að mikið af fatakaupum, og þá alveg sérstaklega kaup á barnafatnaði, fara fram erlendis eins og raun ber vitni. Auðvitað er þegnum þessa lands mismunað mjög vegna þess að ekki allir hafa efni á því að ferðast, það eru ekki allir sem eiga erindi til útlanda reglulega og geta nýtt sér möguleikann á að kaupa vörurnar ódýrari.

Íslensk innflutningsverslun reynir að sjálfsögðu að standast samkeppni við erlenda markaði en íslensk innflutningsverslun þarf sitt, hún þarf að geta keppt við verð og þegar innkaupin eru óhagstæðari vegna tolla og vörugjalda sem við bjóðum upp á gerir það samkeppnisstöðu hennar mjög erfiða. Á endanum fer það út í verðlagið og lendir á neytendum landsins.

Þá komum við að því hvaða áhrif gjaldfrestur getur haft fyrir verslun, bæði innflutningsverslun og dreifingaraðila og smásöluverslun sem flytur beint inn frá Evrópu. Ég vil taka undir með þeim sem hafa komið inn á það í umfjöllun um málið að í raun og veru þurfum við að skoða þau kjör mjög vel. Ég er á því að þetta frumvarp þurfi að vera sett til að gilda til framtíðar. Reyndar er ég á því að fjölga þurfi gjalddögum og lengja í gjaldfrestum enn frekar. Það getur verið þáttur í því að auðvelda bæði smásöluverslun, sem flytur beint inn, og innflutningsversluninni, sem veitir gríðarlega mikla þjónustu með dreifingu sinni á íslenskum markaði, að standast samkeppni við erlenda aðila.

Það hefur verið þannig, og var áður en við fórum að setja þessar breytingar í lög, að mjög ströng skilyrði voru fyrir greiðslu aðflutningsgjalda og virðisaukaskatts í tolli. Ég þekki það af eigin raun vegna þess að ég rak innflutningsverslun og smásöluverslanir í mörg ár. Óbilgirnin af hálfu opinberra aðila er mjög mikil, t.d. þegar fyrirtæki geta ekki greitt gjalddaga. Þá er hreinlega lokað fyrir tollkrít þeirra og þar með geta menn ekki leyst vörur til sín inn í landið.

Tökum dæmi af innflutningsverslun sem flytur inn vöru frá Evrópu, jafnvel sem tvítollast. Þeir hafa einhvern greiðslufrest frá birgjum sínum erlendis, annaðhvort með því að opna einhverja bankaábyrgð gagnvart þeim eða þá að traust hefur myndast í samskiptum aðilanna svo erlendi birginn gefur greiðslufrest sem er algengt að sé 30–60 dagar.

Til að reyna að standa sig enn betur í samkeppninni en ella reyna menn að taka færri sendingar til landsins en á sama tíma þurfa þeir að taka meira magn í einu. Flutningskostnaður í verðlagningu á innfluttri vöru á Íslandi vegur hátt, það er dýrt að flytja vöru til Íslands. Ég er ekki að segja að flutningsaðilarnir okri, þar ríkir ákveðin samkeppni sem ég held að virki ágætlega, en leiðin er tiltölulega löng og flutningskostnaður er mikill. Það er ekki óalgengt að flutningskostnaður vegi í kringum 10–15% í verðlagningu vöru, kostnaðarverðútreikningi vöru. Auðvitað fer það svolítið eftir því magni sem kemur í einu og hvernig vara skipast í pökkum en þetta er verulegur áhrifaþáttur. Innflytjandi þarf að greiða þá hluti og á eðlilegum gjaldfresti, stundum gagnvart flutningsaðilum, en oft mjög fljótt eða um það leyti sem hann fær vöruna afhenta.

Vegna þess magns sem er verið að taka er reynt að ná niður kostnaðinum. Innflutningsverslunin gegnir gríðarlega miklu hlutverki í allri umsýslu í landinu. Hún dreifir til allra byggða, hringinn í kringum landið. Innflutningsverslunin þarf að eiga þær nauðsynjavörur sem við flytjum inn á lager, fólk vill geta gengið að þeim snurðulaust og geta treyst á að þær séu til staðar.

Nú komum við að þætti ríkisins. Það er gríðarlega dýrt fyrir innflutningsverslun að þurfa að binda fjármagnið í vöru sem er kannski á lager í einhverjar vikur, jafnvel mánuði, til að geta þjónustað markaðinn. Ég held að hið opinbera þurfi að skoða það mjög vel og reyna að mæta innflutningsversluninni með því að dreifa enn frekar gjalddögum á tolla- og vörugjöldum. Reyndar tel ég gríðarlega mikilvægt að fara í heildarendurskoðun á þeim pakka öllum, grisja þann skóg eins og hægt er og auka þannig samkeppnishæfi íslenskrar verslunar. Það þarf að vera forgangsverkefni vegna þess að við eigum að forgangsraða í þágu neytenda, við eigum að forgangsraða í þágu heimilanna í landinu og lækka vöruverð á neysluvörum heimilanna, hvort sem það er fatnaður, skór, raftæki, heimilistæki eða öll matvara, nauðsynjavara. Það kemur heimilunum til góða og eykur ráðstöfunartekjur heimilanna, verslun verður meiri og hún dafnar frekar og það styrkir allt hvað annað. Ég er alveg sannfærður um að ef sú leið er farin munum við á endanum sjá meiri tekjur og hærri tekjustofn myndast hjá ríkinu, t.d. af virðisaukaskatti, en við náum með þessari leið hérna.

Það sama á við um þá smásöluverslun sem flytur beint inn vörur frá birgjum, t.d. í Evrópu. Við getum haldið okkur við fataverslun af því að ég tek hana sem dæmi og þekki hana mjög vel. Það er ekki óalgengt að verslanir sem höndla með slíka vöru kaupi vörur sem þær ætla að vera með á boðstólum fyrir vorið í ágúst, september árið áður, þær binda sig við ákveðnar pantanir og ákveðna afgreiðslutíma. Það er vara sem hefur komið í verslanir í janúar og febrúar og fram í mars. Varan er til í búðunum, þótt alltaf komi eitthvað nýtt á hverjum tíma, og getur að meginstofni verið til í verslununum alveg fram á vor eða sumar og endar ekki á útsölum fyrr en kannski í lok júní eða í júlí. Við getum alveg ímyndað okkur hvað kostar verslun að þurfa að greiða öll innflutningsgjöldin strax, virðisaukaskatt í tolli og þá tolla sem tilheyra slíkum innflutningi, binda það mikla fjármagn, sem fer út í verðlagið, og innheimta það af viðskiptavinum sínum alveg fram á vor eða sumar.

Til að auka samkeppnishæfi íslenskrar verslunar verður ríkissjóður að taka tillit til þess í framtíðinni. Við verðum að hjálpa íslenskri verslun, ekki síst við þær aðstæður sem við búum við núna, erfiðleika á markaði almennt. Við þurfum að rétta hjálparhönd. Það er vissulega góð meining í frumvarpinu sem við ræðum en ég hefði viljað ganga lengra og skoða málið miklu nánar.

Á endanum lendir allt á íslenskum neytendum. Eftir því sem það er meira íþyngjandi fyrir innflutningsverslunina og verslanir í smásölu þeim mun meira stuðlar það að hærra verðlagi og þar með minni neyslu og minni kaupmætti fyrir heimilin. Mér hefur fundist skorta svolítið á þá hugsun hjá ríkinu. Það var í sjálfu þannig fyrir hrun líka. Ég tel að ríkið hafi verið allt of óbilgjarnt í gegnum tíðina, bæði í þessari skattlagningu og í vörugjaldafrumskógi okkar og síðan í því hvernig það meðhöndlar fyrirtæki sem mögulega lenda í einhverjum tímabundnum vandræðum, mönnum er gefið mjög lítið svigrúm til að bregðast við. Það svigrúm, sem hefur ekki verið til staðar, hefur oftar en ekki, og hægt að minnast margra dæma um það, hreinlega leitt fyrirtæki í gjaldþrot með tilheyrandi afleiðingum. Ég held að með því að meðhöndla málin öðruvísi og taka á vandamálum með fyrirtækjum á víðtækari hátt en nú er gert geti það skilað því þegar upp er staðið að ríkissjóður fái miklu meira upp í gjöld sín en ella.

Það mundi líka draga úr því sem er oft talað um í neikvæðri umræðu hér, það sem er kallað kennitöluflakk. Það er oftar en ekki vegna aðgerða opinberra aðila sem slíkt kemur til og ríkið verður kannski af miklum tekjum. Ég held að með því að beita mildari aðferðum og skoða betur hvert mál fyrir sig (Forseti hringir.) þegar vandamál koma upp geti það á endanum skilað ríkissjóði betri skilum og verslun okkar betri samkeppnisstöðu og þar með neytendum betra vöruverði.