141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir andsvarið. Skilningurinn á því hvernig verðmætin verða til er einmitt það sem mér hefur fundist skorta mjög mikið á á þessu kjörtímabili.

Við búum ekki til verðmæti með því að hækka skatta. Við hljótum að búa þau til með því að tryggja að atvinnulífið sé öflugt. Umræðan hefur oft snúist um hin fáu, stóru fyrirtæki í staðinn fyrir að við horfum til þess að langflest íslensk fyrirtæki eru kannski með tíu starfsmenn að hámarki. Þeim er yfirleitt stjórnað af eiganda sínum sem er þá framkvæmdastjóri fyrirtækisins og starfar í fyrirtækinu sjálfu. Mér fannst það til dæmis sláandi þegar ég tók fyrst sæti á Alþingi þegar lítið frumvarp, sem virtist nú vera frekar skaðlaust, kom fyrir þingið. En þegar gestir komu fyrir nefndina rak ég augun í að gert var ráð fyrir að ákveðnar upplýsingar yrðu birtar á vefsíðu fyrirtækisins. Ef það hefði orðið að lögum hefðum við verið að skylda öll fyrirtæki á Íslandi til þess að vera með vefsíðu.

Ég benti á það við vinnu málsins að það gæti ekki komið til greina vegna þess að fjöldi fyrirtækja á Íslandi hefði ekkert með vefsíðu að gera og þyrfti þá að hafa aðrar leiðir til þess að koma upplýsingum á framfæri. Það virtist koma svolítið á embættismennina. Þessu höfum við líka tekið eftir við vinnu efnahags- og viðskiptanefndar; þegar við höfum komið að ýmsum málum varðandi skattinnheimtu höfum við spurt: Hafið þið sjálfir starfað við fyrirtækjarekstur? (Forseti hringir.) Svarið hefur yfirleitt verið nei.