141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel mjög mikilvægt að fara í þá heildarendurskoðun sem ég ræddi í ræðu minni, ekki bara á tollkerfinu heldur einnig á stærsta tekjuöflunarkerfi ríkisins. Nýlega var haldinn mjög áhugaverður fundur á vegum Framsóknarfélags Kópavogs þar sem sýnt var kökurit yfir tekjuskiptinguna hjá ríkinu. Ég hjó eftir því þar að við eyðum oft óskaplega miklum tíma í að ræða tekjustofna, eins og til dæmis auðlegðarskattinn eða eignarskattinn, sem eru samt ekki svo stór hluti af heildartekjum ríkissjóðs. Eins getum við eytt heilmiklum tíma í að ræða um vörugjöldin eða tollana en við eyðum mun minni tíma í ræða stóru kerfin sem skila mestum tekjum. Við ættum að geta gert þau einfaldari og skilvirkari og jafnvel tryggt í einhverjum tilvikum með einfölduninni að létta skattbyrðina, alla vega að gera það að losa okkur við hina og þessa skatta eða gjöld sem nú eru í kerfinu.

Ég tel því tvímælalaust að horfa þurfi til þess. Ég held að flestir Íslendingar séu sammála um mikilvægi þess að við borgum í sameiginlega sjóði en við eigum að gera það þannig að það styðji við störfin. Annað dæmi sem menn hafa velt hér upp er tryggingagjaldið. Nú liggur fyrir tillaga um skattaívilnanir til kísilvers á Bakka. Ég fagna því að verið sé að fara í atvinnuuppbyggingu þar en maður stoppar samt svolítið við að það skuli vera hægt að koma til móts með tryggingagjaldið gagnvart því stóra fyrirtæki sem ætlar í uppbyggingu þarna, en við erum ekki að gera (Forseti hringir.) það sama gagnvart meginþorra íslenskra fyrirtækja sem eru með flesta starfsmenn í vinnu.