141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir athyglisverða ræðu þar sem hún kom inn á mjög þörf mál. Spurningar mínar til hv. þingmanns eru tvær. Þar sem allt bendir nú til þess að hv. þingmaður muni vera hér á Alþingi á næsta kjörtímabili er mikilvægt að heyra framtíðarsýn hennar að því er varðar málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hv. þingmaður fór svo sem að hluta til yfir stefnu Framsóknarflokksins í því efni varðandi einföldunina vegna þess hvað þetta er allt orðið svifaseint og flókið. Nærtækt er að nefna tollskrárnúmer og þann frumskóg sem vörugjöldin eru. Ef maður ætlar t.d. að setja á fót sjoppu hér á Íslandi held ég að þurfi 15 leyfi til þess og það tekur venjulegan mann fleiri daga að hefja rekstur af því að hann þarf að fást við kerfið.

Sér hv. þingmaður fyrir hönd Framsóknarflokksins að einfalda megi það kerfi eitthvað frekar?

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann um unga fólkið og þá áherslu sem hv. þingmaður benti á, hvernig vörugjöldin virðast fara með ungt fólk. Ég og hv. þingmaður þekkjum bæði nokkuð til þegar kemur að því að kaupa barnaföt, hversu dýrt það er. Nú höfum við séð þá þróun að undanförnu að verslun með barnaföt hefur flust úr landi vegna þess að virðisaukaskattur á barnaföt er hæstur hér í heiminum. Með því flytjum við verslunarstörf úr landi. Ég fagna því að hv. þingmaður vill að við förum að endurskoða þá hluti, m.a. með hagsmuni ungs fólks í huga. Sér hv. þingmaður það sem hluta af verkefnum næsta kjörtímabils að skoða málefni barnafjölskyldna sérstaklega í því samhengi?