141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur sjálf reynslu af fyrirtækjarekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja þannig að ég fagna því sem hún segir hér. Maður heyrir það hjá þeim sem reyna að reka lítil og meðalstór fyrirtæki, sem er undirstaða atvinnu í landinu — jú, jú, við erum með eitt og eitt stórfyrirtæki en megnið af störfunum er hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þess vegna fagna ég því að hv. þingmaður vilji einfalda regluverkið í kringum starfsemi þessara mikilvægu fyrirtækja. Síðan sýnir það í hvaða stöðu fyrirtækin í landinu eru almennt að í frumvarpinu er verið að ívilna fyrirtækjum með því að fresta ákveðnum gjalddögum. Stóra verkefnið sem við eigum að einbeita okkur að er að hlúa að atvinnulífinu í landinu og búa því þannig umhverfi að það geti eflst til mikilla muna vegna þess að við þurfum á því að halda.

En hv. þingmaður hafði ekki tíma til að bregðast við seinni spurningu minni sem snýr að málefnum barnafólks. Ég nefndi sem dæmi að verslun með barnaföt hafi leitað út úr landinu af því að við erum með 25,5% virðisaukaskatt þeim vörum, sem er hæsti virðisaukaskattur í heimi. Fólk fer jafnvel í utanlandsferðir til þess eins að versla föt á börnin sín í stórum stíl. Það þýðir að störfum í íslenskum verslunum hefur verið að fækka, sérstaklega á síðustu fjórum til fimm árum. Samtök verslunar og þjónustu hafa ítrekað bent á það en samt viðhöldum við því með því að hafa hér hæstu skattlagningu á þær nauðsynjar sem barnaföt eru.

Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér á næstunni? Finnst henni það koma til greina að létta álögur á barnafólki og bæta þannig möguleika verslunarinnar til að auka umsvif sín með því að þjónusta barnafólk í landinu? Hver er framtíðarsýn hv. þingmanns þegar kemur að þessu máli, sem verið hefur mér nokkuð hugleikið á þessu kjörtímabili?