141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn á ný fyrir andsvarið. Ég hafði ekki tækifæri til þess að svara seinni spurningunni. Það er nokkuð sem lengi hefur verið í umræðunni. Það er algjörlega sláandi að sjá hversu hátt hlutfall af verslun með fatnað og aðrar vörur fyrir börn fer fram utan landsteinanna. Ég las einhvers staðar að stærsta einstaka barnafataverslunin á Íslandi væri Hennes & Mauritz, sem er ekki einu sinni á Íslandi. Það segir kannski allt sem segja þarf. En í skýrslu McKinseys, sem þeir kynntu ekki fyrir löngu, var lagt upp hvernig við gætum tryggt hagvöxt, verðmætasköpun og störf á Íslandi til framtíðar. Þeir bentu sérstaklega á verslunar- og þjónustugeirann á Íslandi og sögðu að forsenda væri til þess að við gætum tryggt raunverulegan hagvöxt hérna með því að auka framlegðina og verðmætasköpunina í þessum greinum.

Þá fóru þeir í gegnum almenna verslun og fjölluðu um fjármálastarfsemi. Þeir fjölluðu einnig um heildsöluna hjá okkur og hið opinbera, þar væru fjölmörg tækifæri. Þeir töldu að jafnvel væri hægt að losa um allt að því 13 þúsund manns með því að auka framlegðina og arðsemina í greininni, fólk sem gæti síðan farið í aðrar atvinnugreinar og búið til meiri verðmæti þar. Eitt af því sem þeir nefndu í skýrslunni var að endurskoða þyrfti að vöru- og tollakerfi hjá okkur, að tryggja þyrfti meiri samkeppni.

Ég hef talað mjög mikið fyrir því að horfa til þeirra tillagna sem komið hafa frá Samkeppniseftirlitinu um það hvernig við tryggjum aukna samkeppni. Bent hefur verið á að við séum með mjög dýrt og stórt fjármálakerfi sem leiði til aukins vaxtamunar og meiri kostnaðar fyrir öll fyrirtæki, þá ekki bara í þeim atvinnugreinum sem ég nefndi. Að sjálfsögðu þarf að horfa til þess vegna þess að þannig tryggjum (Forseti hringir.) við best hagsmuni barnafjölskyldna að við getum borgað hærri laun fyrir betri störf og komið með verslunina heim.