141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[15:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki að svara seinni spurningu hv. þingmanns og ætla að gera það núna. Ég vil byrja á að segja að ég greiddi atkvæði á móti þessari skattlagningu eins og hv. þingmaður á sínum tíma.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kemur hér inn á, bent var á í þessari umræðu að það hljómar vel að lækka skatta á bíla sem menga minna og eru umhverfisvænni en hækka á þessa stóru, en það hefur afleiðingar á sumum stöðum. Því miður búa ekki allir landsmenn við sömu aðstæður. Svörin voru oft á tíðum: Ja, menn geta þá bara farið í strætó. Gott og vel, það hentar sums staðar og það er bara í góðu lagi. Eins og hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég þá þarf fólk sem býr fyrir utan þéttbýlisstaðina því miður oft að sækja vinnu um langa leið, kannski tugi kílómetra á hverjum degi. Það keyrir í aðstæðum sem eru ekki sambærilegar við að keyra hér í Reykjavík á uppbyggðum, malbikuðum vegum í stórborginni. Þetta fólk þarf auðvitað að hafa betur útbúna bíla, hvort sem það er með fjórhjóladrifi, jafnvel jeppa eða hvernig sem það er. Bein afleiðing af því er að skattlagningin kemur harðar niður á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Eins líka þær hækkanir sem voru á eldsneytið, kolefnisgjaldið og allt það. Þar sögðu menn að draga yrði úr mengun. Allir eru sammála um að reyna að gera það sem mest, en hvað hafði það í för með sér? Það fór auðvitað inn á flutningabílana sem keyra út vörur, þá hækkar flutningsgjaldið út á landsbyggðina, það segir sig alveg sjálft. Frægt dæmi var þegar ágætur fjörður var þveraður vestur á fjörðum. Það stytti vegalengdina mikið og menn voru fegnir því. En bara skattahækkanir ríkisstjórnarinnar í næstu viku á eftir gerðu það að verkum að gjöldin á flutninginn lækkuðu ekki neitt, vegna þess að þótt færri kílómetrar væru keyrðir var búið að hækka eldsneytisverðið þannig að það fór sjálfkrafa inn í verðið. Það er talandi dæmi um hvaða áhrif þetta hefur.