141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[15:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt, sem felst í því að framlengja áfram bráðabirgðaráðstafanir sem teknar voru í gildi stuttu eftir hrun, í kjölfar þess mikla atburðar. Það er framlengt áfram vegna þess að ekki er búið að laga stöðuna sem varð til eftir hrun.

Núna — fjórum og hálfu ári eftir hrun og fjórum árum og einum mánuði eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum, fyrst með stuðningi Framsóknarflokksins en síðan hefur hæstv. ríkisstjórn staðið ein með sínum stuðningsmönnum — hefur hún gripið til ráða sem hafa ekki leyst vandann að mínu mati. Hún fylgir þeirri stefnu margra vinstri manna að auka skatta og auka niðurskurð sem lausn á því að bæta stöðu ríkissjóðs. Þetta eru lausnir beint af augum í huga þeirra sem átta sig ekki alveg á því hvernig atvinnulífið og efnahagslífið bregst við. Það að hækka skatta þýðir ekki endilega að tekjur ríkissjóðs hækki. Það að lækka skatta þýðir heldur ekki að tekjur ríkissjóðs lækki. Þetta hefur meira að segja valdið því að sumir hagfræðiprófessorar geta deilt um það endalaust hvort skattar hafi verið lækkaðir eða hækkaðir í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, sem hann ber víst ábyrgð á einn, þegar skattprósentur voru lækkaðar í mörgum skattflokkum, þar á meðal á tekjum fólks, en skatttekjurnar stórjukust. Þá sögðu menn: Skattarnir hafa hækkað. En gleymdu að segja að það voru skatttekjurnar sem hækkuðu en skattarnir voru lækkaðir. Það getur nefnilega gerst.

Þetta er það sem margir eiga erfitt með að átta sig á, að viðbrögð atvinnulífsins eru háð því hvað skattprósentan er há. Þetta eru augljós sannindi sem bandarískur prófessor komst að einhvern tímann, Laffer, sem kom í heimsókn hingað til Íslands. Ég hef bent á að skattstofninn væri mjög háður skattprósentunni, mismunandi mikið þó, lítið í eignarskatti, en mikið í til dæmis tekjuskatti og alveg sérstaklega mikið í hagnaði fyrirtækja þar sem forráðamenn fyrirtækja geta ráðið því nánast kannski á síðustu vikum ársins hvort fyrirtækið skili hagnaði eða tapi. Ef hagnaðurinn er skattlagður of mikið getur hvatinn verið sá að eyða honum rétt fyrir áramót, eyða hagnaðinum til að þurfa ekki að borga stórar fúlgur í ríkissjóð í skatta. Skatttekjur ríkissjóðs eru því mjög háðar skattprósentunni. Sú mótsögn getur myndast að hækkun á skattprósentunni getur þýtt lægri skatttekjur.

Við erum að sjá þetta núna til dæmis í áfengisgjaldinu þar sem tekjur ríkisins af áfengisgjaldinu lækka þrátt fyrir skattahækkanir. Síðan spyrja menn sig: Hvað verður um skattstofninn? Stundum deyr hann út, hann verður hreinlega ekki lengur til. Sú starfsemi sem gaf áður tekjur verður ekki lengur til. Stundum hverfur hann undir yfirborðið, eins og ég hef nú grun um að sé að gerast með áfengið, þ.e. menn fari að brugga, því miður, sem veldur ákveðnu siðrofi. Mikill innflutningur á sykri bendir til þess þrátt fyrir hækkun skatta á sykur, herra forseti. Það hefur sést mjög víða að hækkun á sköttum getur lækkað skatttekjurnar.

Þetta var ein af ráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar, að skattleggja og skattleggja og skattleggja. En það sem hún gerði líka var að hún fór í einhvers konar draumastöðu vinstri manna, ég leyfi mér að segja það, að flækja skattkerfið til að gera það réttlátara og sanngjarnara og taka tillit til fleiri þátta. Til dæmis tók hún upp fleiri þrep í tekjuskatti sem hefur leitt til mikillar vinnu bæði hjá skattyfirvöldum og alveg sérstaklega á fyrirtækjunum sem þurfa að reikna út núna miklu flóknari skatta en áður. (BJJ: Eru það ekki fjögur þrep?) Fjögur þrep, jú. Núllþrepið, það er nefnilega líka með.

Svo hafa menn flækt virðisaukaskattinn. Ég ætla ekki að nefna öll þau ókjör og ósköp sem hafa dunið yfir, aðallega fyrirtæki landsins. Svo eru alls konar nýir skattar sem menn hafa tekið upp varðandi mengunarskatta, sturtuskattinn og fleiri. Ég ætla ekki að þreyta herra forseta með því að telja upp allar þær skattahækkanir sem menn hafa tekið upp. Flækjustigið hefur aukist og flækjustigið kostar. Og flækjustigið kemur niður á lífskjörum þjóðarinnar.

En menn gerðu ekki bara þetta sem er svona beint af augum án þess að átta sig á því hvernig skattstofnar og skattprósentur hegða sér. Nei, menn fóru líka í niðurskurð, í mjög sterkan niðurskurð.

Nú er það þannig, herra forseti, að ég er ekki voðalega hrifinn af mjög stóru opinberu kerfi. Ég vildi heldur sjá það minna en stærra. Ég held reyndar að stærstu mistök Sjálfstæðisflokksins þegar hann var við völd í 18 ár hafi verið þau að láta velferðarkerfið blása of mikið út. Það má með sanni segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé velferðarflokkur þegar þau afrek eru skoðuð. Þetta tel ég hafa verið mistök hans. Nú erum við að súpa seyðið af því að einhverju leyti.

Það sem núverandi hæstv. ríkisstjórn gerði var að skera niður þegar engin störf var að hafa. Það eru mistökin. Mistökin eru þau að þegar menn skera niður og ætla að minnka velferðarkerfið kemur það yfirleitt alltaf niður á því að segja þarf upp fólki. Þegar velferðarkerfið vex og blæs út er fólk ráðið til starfa, 70% af kostnaði opinberra stofnana og fyrirtækja eru yfirleitt laun. Og þegar þarf að skera niður verða menn að segja upp. Þá er mikilvægt, herra forseti, að fólk hafi möguleika á að fá vinnu, fólk geti fengið vinnu einhvers staðar.

Þau mistök að skattleggja og beita niðurskurðarhnífnum í þeim mæli sem gert var eru mikil mistök. Ef fólk fær ekki vinnu, hvað gerist þá? Það fer á atvinnuleysisbætur, þ.e. fer á framfærslu ríkisins. Það fer í háskóla, sem er jákvætt, en kostar líka lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, frá ríkinu, eða fer til útlanda sem er eiginlega sýnu verst, herra forseti, vegna þess að þá hættir það að borga skatta og skyldur á Íslandi og við njótum þá ekki lengur þess mannauðs sem þar er.

Það var því brugðist við á rangan hátt og afleiðing þess er það frumvarp sem við erum hér að glíma við. Þetta er bráðabirgðaráðstöfun sem var tekin upp til að hjálpa fyrirtækjum sem voru í vandræðum eftir hrun og eru enn í vandræðum eftir hrun. Þess vegna er verið að framlengja þetta.

Af hverju geta fyrirtækin ekki bara tekið lán? Það er vegna þess að bankarnir veita ekki lán til fyrirtækja sem eru í einhverjum vandræðum. Áhættufælni fjármagnsins hefur vaxið mjög mikið. Bankarnir lána eingöngu til mjög tryggra fjárfestinga eða fjárráðstafana og leggja peningana frekar inn í Seðlabankann en að lána til atvinnulífsins. Þess vegna erum við að glíma við þetta frumvarp sem er eins konar bráðabirgðaráðstöfun við afleiðingu hrunsins.

Ég var að glugga um daginn í skýrslu fjármálaráðherra um samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá því í júlí 2009. Ég leyfði mér að fara svo langt aftur, kíkti á skýrsluna sem tók til áranna 2009–2013. Í ár er akkúrat 2013. Hvað skyldi hafa staðið í þeirri skýrslu, herra forseti, um til dæmis hagvöxt? Jú, hann átti að vera 3,1% á árinu 2013 og 4% á árinu 2012 og 4% árið 2011. Þetta hefur mistekist hrapallega. Það hefur mistekist hrapallega að byggja upp þann hagvöxt sem gert var ráð fyrir eftir hrun. Það er nefnilega þannig að þegar mikið hrun verður er eiginlega óhjákvæmilegt að hagvöxtur verði, það er óhjákvæmilegt. En hann hefur verið svo dapur, herra forseti, að við vorum að fá fréttir um það í morgun að árið 2012 var hann ekki nema 1,6%. Sú áætlun hefur farið sílækkandi með hverri nýrri áætlun, þannig að nú er hagvöxtur metinn 1,6%, sem er miklu, miklu minna en þjóðin þarf til að byggja upp atvinnulíf og koma velsæld aftur á fyrir þegnana. Það hefur brugðist.

Það frumvarp sem við ræðum var einmitt neyðarráðstöfun sem tekin var upp vegna þess að fyrirtækin voru löskuð eftir hrun og gátu ekki fengið fjármagn. Það er bara nákvæmlega sama staða, herra forseti, í dag. Auðvitað getur maður ekki verið á móti þessu. Auðvitað getur maður ekki verið á móti því að hjálpa fyrirtækjum í þeirri stöðu sem er í dag. En ég vil gjarnan gera athugasemdir við stöðuna, að staðan skuli vera svona fjórum og hálfu ári eftir hrun. Hæstv. ríkisstjórn hefur algjörlega brugðist.

Við erum að tala um breytingar á þrennum lögum, þ.e. tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt. Ég hefði viljað sjá, herra forseti, aðrar breytingar á þessum lögum. Ég hefði viljað sjá til dæmis að einhver nennti að fara í gegnum vörugjaldafrumskóginn og grisja hann. Fram hafa komið mörg frumvörp, sérstaklega varðandi sykurskattinn sem er á dagskrá á eftir, var tekið af dagskrá og síðan frestað, til dæmis um virðisaukaskattinn á sykur þar sem flækjustig er orðið þvílíkt að menn gera aftur og aftur mistök við lagasetningu. Verið var að leiðrétta lagasetningu sem gerð var í desember sl., það er ekki voðalega langt síðan, herra forseti, daginn er ekki einu sinni farið að lengja almennilega. Verið var að gera breytingar á lögum um vörugjöld til að ná fram skattlagningu á sykur.

Vörugjaldafrumskógurinn er svo flókinn að jafnvel þeir sem sýsla með þetta alla daga, eins og fjármálaráðuneytið, gera mistök. Ég mundi vilja að menn færu í það verkefni, og ég vonast til að það verði verkefni næsta kjörtímabils, að einhver nennti að fara í það að skera upp þennan frumskóg og gera þetta miklu einfaldara, fella niður vörugjöld og fjöldann allan af gjöldum. Ég mundi vilja fella þetta nánast allt saman niður. Þetta gefur ríkissjóði litlar tekjur, veldur óskaplegri vinnu og misskilningi í atvinnulífinu, skekkir samkeppnisstöðu og því um líkt. Ég hef margoft sagt að þarna þurfi menn að taka sér tak og fara í það að breyta öllum vörugjaldafrumskóginum og gera hann einfaldari. Í mínum huga ættu vörugjöld einungis að vera á stærstu vörum eins og bílum, en jafnvel ekki þar, herra forseti, jafnvel ekki þar.

Svo er verið að gera breytingar á tollalögum og ekki veitir af að fara í gegnum þann frumskóg. Það væri góðverk að fara í gegnum frumskóginn um tollana og grisja þar og einfalda.

Ég held að verkefni ríkisstjórnar næsta kjörtímabils ætti að vera að einfalda, einfalda, einfalda. Eftir að núverandi hæstv. ríkisstjórn er búin að flækja, flækja, flækja. Flækjustigið er orðið þvílíkt að hætta er á því að atvinnulífið stöðvist út af flækjustiginu.

Verið er að tala um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Þar hefði ég gjarnan viljað sjá aðra breytingu, sem er hreinlega að lækka þann skatt. Þetta er heimsmet, 25,5%. Mig langar ekki til að eiga það heimsmet, herra forseti. Ég vil lækka þann skatt. Ég vil einfalda hann. Ég vil taka undanþágur í burtu. Vita menn almennt að allt menntakerfið er undanþegið virðisaukaskatti? Hvers vegna í ósköpunum? Og allt heilbrigðiskerfið er undanþegið virðisaukaskatti. Hvers vegna? Þetta gerir allt kerfið miklu, miklu flóknara. Ef spítali kaupir sér bókhaldsaðstoð og þarf að borga virðisaukaskatt þá getur hann ekki dregið innskattinn frá. Þetta er því ekki samkeppnishæft. Það skekkir allt kerfið að vera með slíkar undanþágur. Ég mundi vilja sjá virðisaukaskattskerfið án nokkurrar undanþágu. Þá væri hugsanlegt að lækka prósentuna töluvert, ég lofa ekki hve mikið.

Nú skyldi maður halda að þegar menn eru búnir að skattleggja svona mikið og skera svona mikið niður — niðurskurðurinn hefur verið heiftarlegur, herra forseti, á mörgum sviðum, á öðrum sviðum hafa menn ekki skorið neitt niður, ekki neitt. Á sumum stöðum eins og í heilbrigðiskerfinu hafa menn skorið mjög mikið niður og þá kynni maður að halda að staða ríkissjóðs væri góð. Ó, nei, hún er ekki góð, herra forseti. Hún er ekki góð þrátt fyrir stórhækkun skatta og mikinn niðurskurð.

Ég hef lýst því af hverju skatttekjurnar hækkuðu ekki. Það er vegna þess að hækkun á prósentu getur valdið því að tekjur ríkissjóðs minnki. Það er ein skýringin. En hvernig stendur á því að niðurskurður virkar ekki? Og maður veltir fyrir sér: Hvernig stendur á því að staða ríkissjóðs er svona slæm? Ég hef sagt það mörgum sinnum, herra forseti, hún er ekki bara slæm á pappírnum, því að samkvæmt áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ég var að glugga í átti ríkissjóður að vera með afgangi árið 2013, og mig minnir árið 2012 líka. Nei, það er heilmikið af götum í fjárlögunum. Það vantar risastórar tölur sem menn hafa falið. Ég nefni til dæmis skuldbindingu vegna A-deildar LSR sem átti að vera búið að ganga frá, og á að vera búið að leiðrétta. Það er ekki búið að því.

Ég nefni skuldbindingu vegna Íbúðalánasjóðs. Það vita allir að þar vantar tugi milljarða en ekki er tekið á því. Ég nefni Hörpu, hún er hvergi nokkurs staðar færð á fjárlögum. Eða Vaðlaheiðargöng, þetta er allt saman falið einhvern veginn. Framlag ríkissjóðs í Íbúðalánasjóð var ekki fært á fjárlögum sem gjöld, nei, nei, það var framlag. Þeir voru að kaupa sér góða eign í staðinn. Þetta eru náttúrlega bara fáránleg vinnubrögð. Mér finnst að íbúar landsins eigi meira og betra skilið. Mér finnst að fjárlögin eigi að sýna raunverulega stöðu ríkissjóðs þannig að skattgreiðendur næstu framtíðar, næstu fjögurra, fimm ára, viti hvað bíði þeirra. Mér finnst líka að börnin okkar eigi að vita hvað bíður þeirra. Það á ekki að dylja skuldbindingar eins og gert er með núverandi fjárlögum.

Þetta er allt saman umræða sem snýst út af því að við erum að ræða um sjálfsagða framlengingu á lögum, að fyrirtæki geti dreift gjalddögum, sem eiga að vera í virðisaukaskatti annan hvern mánuð, á næsta mánuð líka, helmingnum af því. Eins með tollalögin og vörugjöldin. Sjálfsagður hlutur, segi ég, í ljósi þess hver staða fyrirtækjanna er döpur.

En auðvitað eiga fyrirtæki að borga sinn virðisaukaskatt. Þau eru búin að innheimta hann. Auðvitað eiga þau ekki að vera í þeirri stöðu fjórum og hálfu ári eftir hrun að grípa þurfi til svona ráðstafana, að fyrirtæki sem búin eru að innheimta virðisaukaskatt fái gjaldfrest. Eða þeir sem flytja inn og eiga að borga tolla og vörugjöld, að þeir borgi þau. Hvað er annað eðlilegra, herra forseti?

Nei, við erum að framlengja þessa frestun sem tekin var upp í neyðarástandi eftir hrun. Það segir mér að enn þá sé neyðarástand. Ríkisstjórnin hefur ekki náð tökum á þeim afleiðingum sem hrunið olli hér á landi og öll þjóðin þarf að líða fyrir það fjórum og hálfu ári eftir hrun.