141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Líklega er það rétt mat hjá hv. þingmanni að einu skynsamlegu viðbrögðin, einu viðbrögðin sem eru líkleg til að koma að einhverju gagni andspænis nýjustu tölum um hagvöxt, séu þau að ríkisstjórnin fari frá og við fáum nýja ríkisstjórn fyrr en stefnir í.

Sem betur fer er ekkert mjög langt í að ríkisstjórninni verði skipt út á einn eða annan hátt, hvort sem hún fer sjálfviljug eða með kosningum. Það er vissulega rétt sem hv. þingmaður rakti ágætlega, bæði í ræðu sinni og ítrekaði svo í andsvarinu, að mikilvægt er að skapa stöðugleika fyrir íslenskt efnahagslíf.

Það má líka taka undir það sem hv. þingmaður benti á að í stað þess að skapa stöðugleika, sem á að vera eitt af meginhlutverkum stjórnvalda, hafa þessi stjórnvöld gert hið gagnstæða og skapað óvissu. Ég hef áhuga á að heyra álit hv. þingmanns á því. Óvissa og óstöðugleiki hafa verið sköpuð umfram það sem tilefni er til varðandi gjaldmiðilinn, krónuna. Finnst hv. þingmanni ásættanlegt fyrir íslenskt atvinnulíf að seðlabankastjóri landsins og fjármálaráðherra skuli ítrekað í viðtölum við erlenda fjölmiðla, og ekki hvað síst þá fjölmiðla sem skipta mestu máli í fjármálaheiminum, lýsa því yfir að krónan verði í höftum um ókomna tíð, gjaldmiðill landsins, sem það fólk vinnur við að vernda, sé ónýtur og enginn muni vilja fjárfesta hér á meðan gjaldmiðillinn er við lýði? Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það hafi þegar fólk í þeirri stöðu heldur slíku fram í viðtölum (Forseti hringir.) við fjölmiðla?