141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki aðeins hluti af skýringunni heldur mjög stór hluti af henni. Svo rammt kveður að þeirri pólitísku óvissu sem er orðin að atriði á Íslandi að þegar erlendir fjárfestar taka ákvörðun um hvort þeir eigi að ráðast í verkefni hér reikna þeir sumir hverjir sérstakt pólitískt álag inn í, óvissuálag sem þýðir að þeir ætlast til þess að fá meira. Þeir þurfa að fá þeim mun meira út úr fjárfestingu sinni, þurfa að ná þeim mun meiri ávöxtun út úr landinu til að réttlætanlegt sé að ráðast í framkvæmdina vegna þess að pólitíkin er þannig að þeir geta lent í því að tapa öllu fyrir tilstilli stjórnvalda. Þau geta tekið upp á einhverri alveg nýrri stefnu sem gerir fjárfestinguna miklu óarðbærari eða jafnvel setur hana í þrot. Því krefjast fjárfestarnir þeim mun meiri ávöxtunar og nú er það komið á það stig að svo mikla ávöxtun þarf til að menn treysti sér til að taka áhættuna að fjárfesting er, eins og við sjáum, í sögulegu lágmarki, menn ráðast ekki í hana.

Á þessu kjörtímabili hefur Ísland fikrað sig upp lista yfir slíka pólitíska áhættu vegna þess að hún er mæld. Það eru stofnanir sem mæla og meta pólitíska áhættu fyrir fjárfesta í löndum um allan heim og nú hefur Ísland verið sett í hóp með löndum eins og Egyptalandi, þar sem er nýbúið að vera uppreisnarástand, Rússlandi og fjölmörgum Afríkuríkjum og Suður-Ameríkuríkjum. Það er eitthvað sem hefði verið óhugsandi á Íslandi fyrir ekki svo löngu. Vel að merkja er það ekki fyrst og fremst afleiðing af efnahagshruninu og tapinu sem hlaust af því heldur afleiðing af pólitíkinni sem hefur verið rekin (Forseti hringir.) síðan.