141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að spyrja hann um skoðun hans á því hvort hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn skilji í raun og veru ástandið sem er hér á landi. Við sjáum nýjustu tölurnar hagvaxtarspárinnar. Hér liggja fyrir frumvörp með kostnaðarmat inn í næsta kjörtímabil sem er ekki upp á milljarða heldur tugi milljarða þrátt fyrir að skuldsetning ríkissjóðs sé eins og hún er. Það er bent á í hverju frumvarpinu á fætur öðru, sem allir vita auðvitað, að ríkisstjórnin hefur ákveðna ríkisfjármálastefnu. Frumvörpin passa ekkert inn í hana sem þýðir að skuldastaða ríkissjóðs getur orðið ósjálfbær. Við vitum báðir að ríkissjóður greiðir um 90 milljarða í vexti á þessu ári og áætlað er að á næsta kjörtímabili verði þeir um 400 milljarðar, vaxtagjöld í skjóli gjaldeyrishafta og ef þau væru ekki fyrir hendi væru þeir miklu hærri. Samt eru þessar tölur lagðar fram.

Hv. þingmaður nefndi samninginn sem stjórnvöld gerðu við stóriðjuna á Íslandi um að greiða 1.200 milljónir á ári þrjú ár fram í tímann og greiða síðan til baka þessa 3,6 milljarða þegar næsta kjörtímabil hefst. Við erum að taka út séreignarsparnaðinn og svona mætti lengi telja. Við erum alltaf að velta byrðunum af þeim ákvörðunum sem er verið að taka yfir á næsta kjörtímabil og þarnæsta, í raun og veru á næstu ríkisstjórn og næstu kynslóðir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að hæstv. ríkisstjórn geri sér almennt grein fyrir því efnahagsástandi sem er hér á landi og þær hættur sem eru á mörkuðum, bæði erlendis og annars staðar, sem geta dregið úr því að hagvöxtur fari af stað? Getur verið að hæstv. ríkisstjórnin sé haldin svo miklu þekkingarleysi gagnvart uppbyggingu og þeirri stefnu sem er í efnahagsmálum að hún geri sér akkúrat enga grein fyrir því hver staðan er?