141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru mjög áhugaverðar spurningar. Ég er feginn að hv. þingmaður skyldi spyrja mig vegna þess að þetta eru hlutir sem ég hef velt mikið fyrir mér upp á síðkastið og reyndar alllengi á þessu kjörtímabili.

Þegar maður horfir upp á ástand eins og það sem er ríkjandi í efnahagsmálum og þá stefnu sem stjórnvöld reka getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvort þau geri sér grein fyrir vandanum sjálf og eins hvort þau séu meðvitað að fresta honum, taka ekki á honum. Hvað seinni hlutann varðar, þ.e. frestunina, er það alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að stöðugt er verið að ýta vandanum á undan sér. Þar með stækkar hann fyrir framtíðina og margt verður erfiðara við upphaf næsta kjörtímabils en var í upphafi þessa kjörtímabils vegna þess að þá voru öll tækifærin til að taka á málum enn þá til staðar. Skuldir ríkisins hafa hrannast upp síðan.

Hvað það varðar held ég að það sé mjög meðvituð stefna hjá stjórnvöldum, þótt hún sé ekki yfirlýst, að fresta vandanum og láta einhverja aðra um að taka á honum, eins og birtist á fjölmörgum sviðum.

Hvað hitt varðar, skilning stjórnvalda á efnahagsástandinu almennt og hvað þurfi til til að laga það, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að skilningsleysið sé alveg yfirþyrmandi. Maður sér svo oft í rökstuðningi stjórnvalda og þeim tillögum sem þau leggja fram að þau átta sig ekki á því hvernig hlutirnir virka. Ég tel jafnvel, og ég er komin á þá skoðun eftir langa umhugsun eins og ég nefndi í byrjun, að í stjórnarliðinu sé fólk sem haldi að verðmæti verði til með skattlagningu, að skattar búi (Forseti hringir.) til verðmæti.