141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[17:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, lögum um vörugjöld og lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Við fyrstu sýn er þetta nú saklaust frumvarp. Þegar nefndarálitið er lesið sannfærist maður um að svo er. Fulltrúar allra flokka sem sitja í hv. efnahags- og viðskiptanefnd skrifa upp á það án fyrirvara.

Þegar maður síðan les frumvarpið og sérstaklega athugasemdir við það, sem stundum eru kallaðar greinargerðir, verður það svolítið áhugavert og gefur manni tilefni til að halda hér allnokkra ræðu þótt frumvarpið sé í sjálfu sér ívilnandi og jákvætt.

Það kemur hér fram, frú forseti, að tilgangur frumvarpsins sé að dreifa gjalddögum uppgjörstímabila á tvo gjalddaga í hvert sinn. Hér segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að síðari helmingi aðflutningsgjalda skuli skila eigi síðar en á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Einnig er lagt til að þetta fyrirkomulag skerði ekki heimild til að færa til innskatts allan virðisaukaskatt viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hafi verið greiddur. Samhljóða breytingar hafa nokkrum sinnum áður verið lagðar til og var sambærileg breyting lögfest síðast með lögum nr. 18/2012.“

Hér kom fram í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og reyndar einnig í máli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að trúlega væri þetta í fjórða ef ekki fimmta sinn sem þessi breyting er gerð.

Það er síðasta setningin í þessari athugasemd sem gefur manni tilefni til að fjalla um mál með almennum hætti. Með leyfi forseta, stendur þar:

„Frumvarpinu er ætlað að bregðast tímabundið við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja.“

Tímabundið. Í fjórða eða fimmta sinn. Það verður að segjast eins og er að metnaður ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við fyrirtæki og heimili í greiðsluerfiðleikum er ekki mikill og hefur það reyndar verið staðfest í ýmsum verkum hennar á liðnum missirum og einnig í orðum og forgangsröðun verkefna nú þegar komið er að lokum kjörtímabilsins. Við erum komin að lokum kjörtímabilsins. Það eru örfáir dagar eftir og það eina sem ríkisstjórninni dettur í hug til að bregðast við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja er að dreifa gjalddögum á tvo.

Við framsóknarmenn lögðum í upphafi þessa kjörtímabils fram tillögur til að bregðast við greiðsluvanda fyrirtækja og heimila með því að leiðrétta lán þessara aðila um 20%, svokölluð 20% leið. Hún var ekki útfærð í öllum smáatriðum og fékk strax mjög léleg viðbrögð og döpur frá stjórnarflokkunum. Því miður, frú forseti, var sú leið ekki nýtt því að eftir á hafa margir sannfærst um að þetta hefði einmitt verið leiðin sem skynsamlegast hefði verið að fara. En hvaða leið fer ríkisstjórnin? Jú, hún leggur til tímabundna frestun í lok kjörtímabilsins. Viku áður en þingið er sent heim á að fresta gjalddögum tolla og vörugjalda. Það er leið ríkisstjórnarinnar.

Það hefur komið fram í umræðu á þinginu hjá okkur framsóknarmönnum að við höfum á hverju ári lagt fram tillögur til aðgerða í þágu ofskuldsettra heimila og ofskuldsettra fyrirtækja. Við höfum lagt fram á hverju ári tillögur sem lúta að því, því tíminn hefur auðvitað breytt aðstæðum. Við höfum lagt fram tillögur um að koma til móts við skuldsett heimili og fyrirtæki, meðal annars með því að nýta skattkerfið til að hvetja til hraðari niðurgreiðslu höfuðstóls. Við höfum lagt fram tillögur um að setja þak á verðbólguna sem er auðvitað hinn undirliggjandi vandi í efnahagskerfinu og veldur því að fyrirtækin komast ekki út úr erfiðleikunum. Verðbólgan er eitt af vandamálunum í efnahagskerfinu, ég kem inn á fleiri á eftir.

Við höfum lagt fram nú í aðdraganda kosninga hugmyndir um að við viljum afnema verðtryggingu á neytendalán og koma með ýmsum hætti inn í atvinnulífið til þess að örva það. Spurt hefur verið: Er þetta hægt? Ég segi: Já, það er hægt. Við treystum okkur til þess. Við höfum viljann til þess og við höfum staðfestuna. En hvað leggur ríkisstjórnin til? Hún leggur fram frumvarp um að fresta gjalddögum á tollum, aðflutningsgjalda og vörugjalda til að koma tímabundið til móts við áframhaldandi greiðsluerfiðleika fyrirtækja. Ekki er metnaðurinn mikill.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson upplýsti í ræðu í gær að á síðastliðnum tveimur árum hefði verið á fjárlögum heimild ríkisstjórnarinnar til að nýta fjármuni til að kanna greiðslustöðu og skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Hvorugt árið hefur ríkisstjórnin nýtt eina einustu krónu til að kanna þessar grundvallarstærðir sem gætu gefið til kynna hver staðan væri og hvað þyrfti að gera. Metnaðurinn var ekki meiri en svo.

Herra forseti. Hér leggur ríkisstjórnin til að fresta gjalddögum til að koma tímabundið til móts við greiðsluerfiðleika fyrirtækja.

Við framsóknarmenn höfum talað um að skynsamlegt sé að einfalda regluverkið og skattkerfið, þar á meðal þau vörugjöld sem við ætlum að fresta gjalddögum á. Ég held að við verðum að horfast í augu við að mjög mikilvægt er að einfalda regluverk í kringum lítil og meðalstór fyrirtæki, sem eru nú allflest fyrirtæki á Íslandi, sennilega 90%. Það þarf að einfalda regluverkið til að hjálpa nýjum fyrirtækjum að fara af stað og þegar fyrirtæki eru að hefja nýjar framleiðslulínur eða stækka. Við erum búin að byggja upp ótrúlega flókið regluverk í kringum litla hluti. Og við höfum líka talað um að nauðsynlegt sé að einfalda skattkerfið og höfum horft í því sambandi sérstaklega á tryggingagjaldið, með tilliti til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Eftir fjögurra ára setu Vinstri grænna og Samfylkingar í ríkisstjórn sjáum við ekkert af þessu. Aftur á móti hafa þeir breytt skattkerfinu 200 sinnum, nánast alltaf til hækkunar. Það er mjög mikil óvissa og skattkerfið og regluverkið er orðið mjög flókið. Í lok þessa þings er eini metnaðurinn sá að breyta gjalddögum á aðflutningsgjöldum og vörugjöldum úr einum í tvo. Metnaðurinn er ekki meiri eða getan.

Við framsóknarmenn höfum talað um að hér þurfi að stokka upp, það þurfi nýja stefnu. Snúa verði frá því stefnuleysi og þeirri andstöðu við atvinnuuppbyggingu sem hefur ríkt á síðastliðnum fjórum árum. Hér þurfi að koma stöðugleiki í efnahagsmálin og líka í pólitíkina, því pólitísk óvissa hefur m.a. valdið því, frú forseti, að fyrirtæki hafa hætt við að koma hingað til lands og fjárfesta. Þau hafa hætt við að koma og það er kannski ekki skrýtið með 200 breytingar á skattkerfi á fjórum árum og alls kyns yfirlýsingar þar að lútandi.

Við höfum líka talað um að nauðsynlegt sé að efnahagsástandið verði stöðugra. Við þurfum að ná tökum á verðbólgunni, hinum undirliggjandi vanda í efnahag Íslendinga. Hvernig gerum við það? Það gerum við auðvitað með því að sýna aðhald og aga í rekstri.

En hvernig gerði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn það á árunum 2007 eða 2008 þegar stofnuð var ný ríkisstjórn? Jú, meiningin var þá, í lok bóluhagkerfisins og samkvæmt kröfu Samfylkingarinnar eins og upplýst hefur verið, að stóru bankarnir yrðu áfram staðsettir á Íslandi og þeir ættu að halda áfram að stækka með tilheyrandi hruni sem við þekkjum.

Í útgjöldum ríkisins og því algera agaleysi í fjárlögum vegna ársins 2008, sem framsóknarmenn á þingi beittu sér hart gegn, jukust ríkisútgjöld um 20%. Í ráðuneytum Samfylkingarinnar um 38%. Þetta er agaleysi, frú forseti. Þetta er ólíklegt til að skapa stöðugt efnahagsástand enda höfum við séð afleiðingarnar af þessu nú þegar Samfylkingin hefur verið í stjórn í sex ár, með Vinstri grænum síðastliðin fjögur. Ástandið er litlu skárra. Nú erum við að fara í kosningar eftir fjögurra ára setu þessara flokka á ríkisstjórnarstóli og hvað hefur komið fram?

Á síðustu mánuðum hefur verið kynnt með miklum lúðrablæstri fjárfestingarstefna ríkisstjórnarinnar. Hver er hún? Jú, hún á að koma til útgjalda einhvern tímann seinna. Það á að standa undir þeirri fjárfestingu að stærstu leyti með veiðigjöldum sem eru lögð á sjávarútveginn og eru að leggja sjávarútveginn í rúst. Þannig á að færa peninga á milli, leggja eina atvinnugrein í rúst og færa peninga yfir í aðra. Það væri langt mál að útskýra hvernig staðan er þar.

Ég ætla að fara hraðar yfir sögu. Í gær eða fyrradag kom inn í þingið til 1. umr. frumvarp um almannatryggingar, lög sem er búið að vinna að sameiginlega í ein þrjú ár með mjög góðum markmiðum. En hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að koma með þetta mál inn í þingið þegar hálfur mánuður er eftir af þinginu án þess að setja fram nokkra hugmynd um það hvernig á að standa undir gríðarlegum útgjöldum sem þar koma fram? Það er bara ávísun fram í tímann.

Í gærkvöldi átti að ræða frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um LÍN, Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í því kemur fram, samkvæmt ráðuneyti mennta- og menningarmála, að kostnaðurinn við það sé rúmir 2 milljarðar. En að mati fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins er kostnaðurinn 4 milljarðar. Hverju eigum við að trúa, óbreyttir þingmenn hér í salnum?

Þetta er eins og með hin málin, þau áttu að koma til framkvæmda seinna, útgjöldin áttu að koma einhvern tímann seinna.

Í gærkvöldi ræddum við mjög jákvætt mál. Loksins fjárfesting. Loksins fjárfesting í orkufrekum iðnaði úti á landsbyggðinni á norðausturhorninu sem menn hafa beðið mjög lengi eftir. En hvernig var það? Jú, öll útgjöldin koma til eftir að ríkisstjórnin er farin frá. Í haust eða á næsta ári og þarnæsta ári. Það er búið að bíða eftir þessu allt kjörtímabilið. Og var nú nokkur þörf á.

Hér hefur verið söguleg lægð í fjárfestingum, herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra fór í umræðu við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson um vöxt fyrirtækja, ekki síst lítilla og meðalstórra, og stærði sig af því að fjárfestingar hefðu aukist um 25%, frá því að vera nánast ekki neitt í að vera 25% meiri. Engu að síður eru þær undir 50% að meðaltali síðastliðin mörg ár. Fjárfesting er sem sagt allt of lítil. Enda hefur komið í ljós að sá hagvöxtur sem metinn var upp á 2,5% hefur nú reynst vera 1,6%. Þær spár sem hingað til hafa verið lagðar fram hafa ævinlega verið leiðréttar og lækkaðar og lækkaðar. Þegar menn líta síðan í baksýnisspegilinn og skoða hinar raunverulegu tölur er ekki aðeins að sjá smáskekkju heldur ber næstum því heilt prósent á milli. Það skýrir margt um þá stöðu sem íbúar á Íslandi hafa upplifað, sem heimilin og fyrirtækin hafa upplifað sem hina raunverulegu stöðu, að hér væri ekkert að gerast, þrátt fyrir fagurgala ríkisstjórnarflokkanna, stjórnarþingmanna og hvað þá ráðherra.

Þetta veltir upp annarri spurningu, herra forseti. Við höfum talað fyrir því síðan þingmannaskýrslan kom fram, þingsályktunartillagan sem samþykkt var hér 63:0, að það þyrfti að vera einhver stofnun með hagfræðiþekkingu til starfa fyrir þingið, að við hefðum möguleika á að fá hagfræðilegar úttektir í anda þeirra sem við þekktum þegar hér var Þjóðhagsstofnun, af því að það virðist ekki vera hægt að treysta þeim spám sem koma frá Seðlabankanum eða fjármálaráðuneytinu. Það er rúmlega skekkja, það er stórkostlegur mismunur. Maður veltir því fyrir sér hvort þær hafi verið notaðar í pólitískum tilgangi. Þó getur það vart verið, því að sannleikurinn kemur að lokum fram og hann er dapur.

Þetta frumvarp, herra forseti, er sönnun þess að hér þarf að snúa við blaðinu. Við þurfum að auka hagvöxt mjög mikið, mun meira en við héldum og setja miklu fleiri verkefni í gang. En það jákvæða við stöðuna á Íslandi er að tækifærin eru alls staðar. Þau eru hringinn í kringum landið. Í sjávarútveginum er til að mynda gríðarleg nýsköpunargeta og geta til framleiðniaukningar ef greinin hefur möguleika á að nýta þá fjármuni sem hún skapar til að fara í nýsköpunarverkefni og framleiðniaukningu sem mun skila þjóðinni verulegum fjármunum, atvinnu og gjaldeyri.

Það sama má segja um landbúnað og orkufrekan iðnað. Það merkilega er að í atvinnugrein eins og loðdýrarækt, sem hefur nú verið talað illa um í langan tíma, skiluðu 21 eða 22 bú með loðdýr rúmlega milljarði í gjaldeyristekjur fyrir nokkrum árum. Núna tveimur, þremur árum síðar hefur búunum fjölgað um eitt eða tvö, en gjaldeyristekjurnar eru orðnar meiri en 2 milljarðar. Fiskeldi stórvex á sunnanverðum Vestfjörðum. Verið er að byggja talsvert stóra fiskeldisstöð á Reykjanesi sem er mjög áhugavert verkefni og ýmis önnur fiskeldisfyrirtæki, Íslensk matorka og fleiri hafa haft mikil jákvæð áform uppi um það hvernig má byggja upp glæsilega atvinnugrein sem mun skila okkur miklu í framtíðinni.

Hvað hefur ríkisstjórnin gert í því á þessum fjórum árum? Lítið. Og hvað lesum við hér? Það eina sem ríkisstjórninni dettur í hug til að bregðast við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja — og það er ekki skrýtið að það séu áframhaldandi greiðsluerfiðleikar, það hefur aldrei verið tekið á þeim. Fjárfestingu hefur verið haldið niðri. Hér hefur verið óstöðugleiki í efnahagsmálum, óstöðugleiki í hinu pólitíska ástandi. Búið er að flækja regluverk og skattkerfið sem allt hefur gert það að verkum að staða fyrirtækja hefur orðið sífellt erfiðari. Nei, það eina sem ríkisstjórninni dettur í hug er að fjölga gjalddögum úr einum í tvo á aðflutningsgjöldum og vörugjöldum. Þetta er auðvitað ekki gott.

Sóknarfæri okkar á Íslandi eru gríðarlega mörg. (Gripið fram í: Rétt.) Það hefur verið dapurt að hlusta á varaþingmann Samfylkingarinnar, forstöðumanneskju Samtaka verslunar og þjónustu, Margréti Kristmannsdóttur, þegar hún hefur komið fram aftur og aftur og hamrað á því að við eigum að versla í heimabyggð, við eigum ekki að fara til útlanda og versla — sem er eðlilegt — en síðan vilja sömu samtök fá að flytja allt inn og selja í íslenskum verslunum með íslensku starfsfólki erlendar afurðir. Það er með ólíkindum að við í þessu landi getum ekki sammælst um að besta leiðin til að komast út úr þeim vanda sem við erum í er að auka framleiðni, auka framleiðslu, auka gjaldeyristekjur og gera allt sem við getum til að spara þær og moka ekki þeim tekjum út aftur í óþarfainnflutning ef við getum framleitt vöruna á skynsamlegan og hagkvæman hátt innan lands.

En frestunarvandi ríkisstjórnarinnar er ærinn eins og ég hef farið yfir. Gripið hefur verið til alls kyns undarlegra ráða til að fela fjármuni í fjárlagafrumvörpum eða í fjárlagagerðinni, í ársreikningum ríkisins. Má þar benda á lífeyrissjóðina, A-deildina, Íbúðalánasjóð, Hörpuna, Sparisjóð Keflavíkur og Byr. En staðreyndin er sú, herra forseti, að þetta mál er jákvætt en það er bara agnarlítið hænuskref í því sem þarf að gera til að koma til móts við fyrirtæki í greiðsluvanda.