141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[17:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Í stuttu máli er verið að bregðast tímabundið — það er kunnuglegt orð, tímabundið, það hefur verið gert áður — við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækjanna. Allir höfðu auðvitað skilning á því í kjölfar efnahagshrunsins að fyrirtækin lentu í miklum vandræðum. Þá var flutt sambærilegt frumvarp og svo þarf að bregðast við því aftur með þessum hætti. Það kallar á þá umræðu sem farið hefur fram um hversu mikilvægt er að skapa betra umhverfi fyrir fyrirtæki þannig að þau geti dafnað og vaxið í staðinn fyrir að það þurfi trekk í trekk að bregðast við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja þegar við höfum öll tækifæri til þess að skapa umhverfi sem þau geta dafnað í.

Hv. þingmaður sem talaði á undan mér gerði það að umtalsefni undir lok ræðu sinnar og nefndi þar varaþingmann Samfylkingarinnar, Margréti Kristmannsdóttur, sem er í forustu fyrir Samtök verslunar og þjónustu. Ég vil byrja á því að taka upp hanskann fyrir þá ágætu konu vegna þess að hún hefur í málflutningi sínum fyrir Samtök verslunar og þjónustu bent á mikilvægi þess að taka til í vörugjaldaflokkunum og tollaflokkunum með það að markmiði að fyrirtæki sem eru í verslun og þjónustu geti dafnað og vaxið. Við þekkjum auðvitað mörg dæmi um hversu vitlaus tollalöggjöfin hefur verið. Í raun er hún heill frumskógur og verður að setjast yfir þá hluti strax í upphafi næsta kjörtímabils til að einfalda þá og hafa það líka að markmiði að fækka þeim tollaflokkum til að verslunin geti blómstrað. Við erum með hæsta virðisaukaskatt í heimi á barnaföt og við vitum alveg að fólk fer til útlanda til að kaupa barnaföt. Það hefur meira að segja fyrir flugfargjöldunum bara með því að kaupa barnaföt í töluverðu magni. Ákall hefur komið frá því ágæta fólki sem er í forustu fyrir verslun og þjónustu um að einfalda tollakerfið af því að það muni á endanum skila okkur versluninni heim. Það mun fjölga störfum í verslunum og að hægt verður að greiða hærri laun þar, sem hefur strax efnahagsleg áhrif. Okkur ber að hlusta á þetta ágæta fólk og bregðast við þeim ábendingum sem þaðan koma.

Fyrir nokkrum mánuðum var umræða um fyrirtæki sem flutti inn iPhone og hvað það heitir allt saman. Bent var á að það væri nánast engin verslun með þær vörur hér heima heldur keypti fólk þær í útlöndum. Síðan var því breytt og reyndar held ég að gengið hafi einhver kærumál áður en því var breytt. Fólk fór þá að geta keypt þessa hluti á sambærilegu verði hér á landi. Það leiddi af sér fleiri störf, betri afkomu verslunarinnar og þeirra sem störfuðu þar. Það þýddi meiri hagvöxt og hagsæld fyrir þjóðarbúið og landið í heild.

Ef við rifjum upp hvað gerðist síðasta haust við breytingarnar á tollalöggjöfinni var þá það auðvitað mjög dapurlegt og aðstæður erfiðar. Hv. þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd áttu samúð mína alla að þurfa að standa í þessum hlutum við þær aðstæður sem þar voru til að halda fundi, taka málin til umfjöllunar, gera breytingartillögur, taka málin aftur til meðferðar án þess að fara í umræður og gera aftur breytingartillögur við breytingartillögurnar því að frumskógurinn var svo mikill. Menn reyndu að meta áhrifin af breytingunum og gera sér grein fyrir því hvaða áhrif þær hefðu á vísitöluna og þar fram eftir götunum. Það er auðvitað alveg ömurlegt umhverfi og sannast það best á næsta máli sem er á dagskrá þar sem leiðrétta á mistök sem gerð hafa verið. Þau voru eflaust gerð vegna tímaskorts og vitleysu. Við verðum að passa núna á síðasta þinginu á þessu kjörtímabili að vera ekki með störukeppni hér allt of lengi heldur setjast niður og reyna að komast að samkomulagi um hvaða mál á að klára og ljúka þeim með eðlilegum hætti. Það er fullt af málum sem allir eru sammála um að klára og sem mikilvægt er að klára og það eru þau mál sem við eigum að snúa okkur að.

Síðan er það hreint með ólíkindum það umhverfi sem fyrirtækin og fjölskyldurnar búa við. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa verið gerðar endalausar skattkerfisbreytingar. Búið er að breyta skattkerfinu upp undir 200 sinnum, eða ég veit ekki hver talan er orðin, vegna þess hringlandaháttar og vitleysu sem hér er. En ég held hins vegar að það væri mjög mikilvægt og gott að greina vöruflokkana og skoða hvernig við getum einfaldað þá.

Ég sé að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er kominn í salinn. Það er ágætt að rifja upp svokallað smokka- og dömubindafrumvarp sem var til umræðu í haust og alla vitleysuna í kringum það, sem var alveg hreint með ólíkindum. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var búinn að tala um þetta frumvarp við mig í margar vikur áður en hæstv. velferðarráðherra uppgötvaði hversu vitlaust það var þó svo að komið hefðu fram ábendingar um það frá nefndinni í velferðarráðuneytið og er nú búið að fara yfir þær. En síðan þegar fjölmiðlar komust í málið var það dregið til baka. Það var ekki fyrr. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var búinn að benda margsinnis á það en á það var ekki hlustað. Þegar fjölmiðlar komust loks í málið og bentu á alla vitleysuna og ruglið kipptu menn frumvarpinu allt í einu til baka og virtust ekki hafa hugmynd um hvað stóð í því, sem segir okkur auðvitað allt um þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð.

Síðan er það auðvitað spurning þegar menn gera aðför að fyrirtækjunum og hækka endalaust skatta á þau að þá lenda fyrirtækin auðvitað í erfiðleikum sem verið er að bregðast við hér, þ.e. áframhaldandi greiðsluerfiðleikum. Það er vegna þess að ekki eru nægileg umsvif í fyrirtækjunum til að standa undir greiðslum. Við verðum líka að átta okkur á að þau fyrirtæki sem hér er verið að hjálpa með því að fjölga gjalddögum, eru fyrirtæki sem starfað hafa í þessu lagaumhverfi áratugum saman en aldrei hefur þurft að bregðast við með þessum hætti fyrr en núna. Þó að ég hafi skilning á því að þurft hafi að gera það árið 2009 er auðvitað mjög ámælisvert að þess skuli enn þurfa árið 2013. Það ætti að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna þannig að ekki þurfi að breyta gjalddögum eins og hér er verið að gera. Það hefði auðvitað verið best ef ekki hefði ekki þurft að koma til þess og vonandi er það í síðasta sinn sem bregðast þarf við með þessum hætti.

Svo hef ég auðvitað mjög miklar áhyggjur af heildarmyndinni. Skilningsleysi ríkisstjórnarinnar er algert, það blasir við. Hæstv. forsætisráðherra hefur margsinnis komið fram og sagt: Ja, við höfum náð prýðilegum árangri í ríkisfjármálunum. Hagvöxtur er 2,5%, sem er mun meira en í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. En síðan, þegar árið 2012 er gert upp, kemur í ljós að hagvöxturinn, sem spáð var í upphafi 2,5–2,7% og var lækkaður í 2,3% í fjáraukalögunum, er aðeins 1,6% þegar uppgjörið kemur. Það ferli minnir mig á það að þegar fjárlagafrumvarp er lagt fram er gert ráð fyrir ákveðinni niðurstöðu. Svo koma fjáraukalögin, þá kemur ákveðin niðurstaða og svo kemur ríkisreikningur, sem er uppgjör á rekstri ríkisins fyrir viðkomandi ár. Þá kemur þriðja niðurstaðan. Það verður sífellt verra og verra þannig að þetta lýsir með táknrænum hætti hver staðan er.

Lokaorð mín eru þessi: Það er mikilvægt að hlusta á fólkið sem er í forustu fyrir Samtök verslunar og þjónustu og þær ábendingar sem þaðan hafa komið um hvernig hægt væri að einfalda tollalöggjöfina og lækka tolla á sumum vörum til þess að auka umsvifin. Það gefur fólkinu sem við þetta starfar tækifæri til að ráða til sín fleira starfsfólk, greiða hærri laun og fara í uppbyggingu, sem er auðvitað mjög mikilvæg fyrir heildarumhverfi efnahagsmála í landinu.