141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[17:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál um gjaldfrest á tollkrítinni, þ.e. tollum, vörugjöldum og virðisaukaskatti hjá innflutningsfyrirtækjum. Ég kom inn á það áðan í ræðu minni um málið að í raun væri verið að fara illa með tímann í þinginu, sem er dæmigert fyrir vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar og þá flokka að undirbúa þingið ekki betur en það að hér væri hægt að vinna markvisst að því ljúka þingstörfum á þeim fáu dögum sem eftir eru og einbeita kröftum okkar að mikilvægum málum.

Ekki má skilja orð mín svo að hér sé ekki um að ræða mikilvægt mál. Ég tel að málið sé mjög mikilvægt. Það hefur komið áður á borð okkar, árlega, þar sem við höfum þurft að endurnýja þau lög sem sett voru í kjölfar hrunsins til að liðka fyrir þeim fyrirtækjum sem flytja vörur til landsins í þeim erfiðleikum sem almennt einkenndu ástand hjá fyrirtækjum og heimilum í landinu. En ég tel að það hefði mátt horfa á málið miklu fyrr og í raun þurfi að horfa á það til lengri tíma. Eins og ég kom inn á í ræðu minni fyrr í dag um þetta sama mál skiptir þetta miklu fyrir ekki bara þau fyrirtæki sem standa í innflutningi heldur getur þetta haft mikil áhrif á verðmyndun innfluttra vara í landinu. Þetta er þáttur í því.

Auðvitað búum við við ákveðinn frumskóg þegar kemur að sköttum, tollum og vörugjöldum. Það er orðið mjög mikilvægt að fram fari endurskoðun á þeim þætti til að efla samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar og ekki síður til að reyna að mæta óskum og kröfum neytenda um samkeppnishæfi íslenskrar verslunar gagnvart verslun í okkar helstu samanburðarlöndum. Við búum við ansi skerta stöðu í því sambandi. Þetta þekkir hæstv. forseti vel sem lengi var í verslunarrekstri á Siglufirði og reyndar viðskiptavinur minn til margra ára þar þegar ég var með öfluga innflutningsverslun. Ég man eftir að við áttum nokkur samtöl þar sem hann kvartaði yfir verðlagningu minni á vöru og krafði mig reyndar nokkuð ítrekað um lengri greiðslufrest hjá sínu fyrirtæki. Það var svo sem ekkert óeðlilegt af kaupmanninum á Siglufirði á þeim tíma. Þetta voru viðræður sem við tókum við kaupmenn úti um allt land.

Þegar við flytjum vörur til landsins — og eins og við vorum sérstaklega í viðskiptum um fatnað þá er það nefnilega þannig að vegna smæðar markaðarins á Íslandi lendum við mikið í því að tvöföld tollun verður á þeim vörum. Fyrst eru vörurnar, sem framleiddar eru mikið í Austurlöndum, tollaðar í Evrópu og vegna smæðar markaðarins treysta birgjar sér þar ekki til að setja vörurnar inn á frílager. Við þurfum því að borga þann toll og sá tollur er gjarnan um 8–12%, jafnvel upp í 15% í Evrópu, en síðan er þetta tollað aftur á Íslandi um 15%. Þetta skekkir auðvitað mjög samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar.

Síðan er hitt að þeir sem standa í innflutningi reyna að safna saman stærri sendingum af því að flutningskostnaður hefur mikil áhrif á verðlag á innfluttum vörum á Íslandi. Flutningskostnaður er tiltölulega hár í margvíslegri neysluvöru, ekki er óalgengt að hann sé jafnvel um 10% af vöruverðinu. Þetta hefur náttúrlega allt saman bein áhrif á verðlagningu á vörunni og takmarkar í raun getu verslunarinnar til að standast þá samkeppni sem hún á í við sambærilegar verslanir og vöruverð, til dæmis í Evrópu. Það er því mjög tímabært og nauðsynlegt að fara í endurskoðun á tollalöggjöfinni og grisja þennan vörugjalda- og tollafrumskóg. Ég er þess sannfærður að jafnvel þótt við mundum fella niður mjög mikið af þessu og einfalda kerfið mundi það á endanum klárlega leiða til betra vöruverðs á Íslandi, aukinnar samkeppnishæfi íslenskrar verslunar og um leið aukinnar neyslu hér heima. Ég er alveg klár á því að þetta mundi leiða til aukinna tekna af til dæmis virðisaukaskatti fyrir ríkissjóð. Það er því allra hagur í raun að hraða þeirri vinnu sem mest verða má.

Gjaldfrestur er öllum sem standa í viðskiptum mikilvægur. Þegar íslensk innflutningsverslun er almennt að kaupa vörur af birgjum erlendis þá veita birgjarnir greiðslufrest. Hann getur verið mismunandi, almennt er hann kannski frá 30 upp í 60 daga gagnvart bankaábyrgð eða gagnkvæmu trausti þar sem viðskiptasambönd eiga sér kannski einhverja sögu. Síðan þegar innflutningsverslunin dreifir vörunni um landið — hún sinnir mikilvægu hlutverki í því að dreifa nauðsynjavöru um landið — þá þurfa þær verslanir sem kaupa inn vöruna að fá sinn greiðslufrest. Það íþyngir mjög íslenskri innflutningsverslun að þurfa að greiða aðflutningsgjöld, tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt mjög fljótlega eftir að varan kemur. Það bindur mikið fé, menn reyna að taka inn stærri sendingar þannig að lagermyndun verður ansi dýr og er þessum fyrirtækjum oft mjög þungbær í rekstri. Ég tel þess vegna að nauðsynlegt sé að endurskoða þennan þátt til lengri tíma og aðlaga hann meira að þörfum innflutningsverslunar og dreifa jafnvel gjalddögum á lengri tíma en við erum jafnvel að horfa á hér. Hann væri svona meira til samræmis við það hvernig flæðið í viðskiptum gengur fyrir sig á markaði. Það mundi hjálpa íslenskri verslun, innflutningsfyrirtækjum og þeim verslunum sem kaupa vörur beint erlendis frá og búa við sömu íþyngjandi þætti í rekstri sínum eins og hin almenna innflutningsverslun eða heildsalar, eins og við köllum það.

Það er erfitt fyrir verslanir, ef við höldum okkur áfram í þessum fatageira, sem taka jafnvel vörur beint frá birgjum erlendis, þær panta þá vöru á haustmánuðum, ágúst, september, og varan er að koma núna í verslanir. Varan kemur kannski í janúar, febrúar og fram í mars og eitthvað kannski lengra fram á vorið. Þetta eru vörur sem eru að seljast alveg fram á sumar og fara ekki á útsölu fyrr en kemur fram í lok júní eða júlí.

Það gefur augaleið að sú fjárbinding sem þetta tollaumhverfi skapar leiðir einfaldlega til hærra vöruverðs. Þetta þýðir að fjármagnskostnaður og rekstrarkostnaður þessara fyrirtækja verður miklu meiri en ella. Á endanum er það neytandinn, hinn almenni neytandi á Íslandi sem borgar brúsann.

Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að íslensk verslunarfyrirtæki nái að dafna og til að þau megi dafna þarf að skapa þeim það samkeppnisumhverfi sem getur orðið til að efla þau í samkeppni við erlenda verslun, þá á ég við það sem Íslendingar eru að kaupa í útlöndum. Við þurfum að standast þá samkeppni til að íslenskir neytendur sjái hag sínum borgið í því að kaupa vörur frekar hér heima en fara í þessar svokölluðu verslunarferðir. Fólk á kannski frekar að njóta menningar og annarra hluta í ferðum til útlanda en að þramma upp að hnjám við að versla í búðum. Ég held að ef þetta tækist þá værum við að tala um miklar breytingar sem gætu orðið öllum til góðs, ekki síst neytendum og ekki síður ríkissjóði.