141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[18:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að ræða þær leiðréttingar sem frumvarpið leiðir fram, leiðréttingar á lögum sem voru samþykkt í desember síðastliðinn, þ.e. nýsamþykktum lögum. Ég ætla eingöngu að tala um það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom mjög vel inn á, vandræðaganginn í sambandi við málið. Það sem ég ætla að tala um er álagning á sætuefni sem er gert ráð fyrir að verði 42.000 kr. á kíló. Ég er ekki að ýkja neitt, það stendur í frumvarpinu að vörugjald á kíló af sætuefni sé 42.000 kr.

Það væri hugsanlega skiljanlegt, hugsanlega þótt ég gæti ekki skilið það, ef sætuefni hefði eitthvað með óheilbrigði að gera, væru fitandi eða annað slíkt en svo er ekki. Það kom fram hjá gestum nefndarinnar að sætuefni ein og sér skemma ekki tennur, valda ekki offitu eða öðru álíka. Það er eingöngu í gosi sem sætuefni geta valdið tannskemmdum. Ég vil því spyrja forsjárhyggjufólkið af hverju það skattleggur ekki gos í staðinn fyrir að ráðast á sætuefni sem maður notar út í kaffi og sitthvað fleira. Fyrir nú utan að þegar farið er að skattleggja einhverja vöru með slíkri upphæð, 42.000 kr. á kíló, skapast töluverðu hvati til að smygla viðkomandi vöru. Ég ætla að vona að það næsta sem þarf að þjálfa fíkniefnahunda í verði ekki að þefa eftir sætuefnum.

Ég hef miklar efasemdir um að leggja 42.000 kr. á kíló á sætuefni. Ég er með þann fyrirvara við frumvarpið og er á móti því. Ég er líka á móti því, eins og ég gat um við 1. umræðu og eins í umræðunni í vetur, að hv. þingmenn ætli að hafa vit fyrir fólki í landinu, hvað það eigi að borða og drekka. Ég treysti fullorðnu fólki til að hafa vit fyrir sjálfu sér þegar kemur að því sem það borðar og drekkur. Það má upplýsa menn og segja þeim einhverjar staðreyndir en ég er á móti því að reyna að hafa vit fyrir fólki með því að hækka verð á sumri vöru, eins og sykri, upp úr öllu valdi. Foreldrar geta haft vit fyrir börnum sínum en ég er á móti því að hv. þingmenn reyni að hafa vit fyrir jafnvel sér eldra fólki.