141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2014 frá meiri hluta velferðarnefndar.

Fyrir nefndina komu fjölmargir aðilar sem nefndir eru í nefndarálitinu auk þess sem margar umsagnir bárust velferðarnefnd um málið.

Almennt um framkvæmdaáætlun í barnavernd. Samkvæmt 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er yfirstjórn barnaverndarmála í höndum velferðarráðuneytisins og ber ráðuneytið einnig ábyrgð á almennri stefnumótun í barnaverndarmálum. Samkvæmt 7. gr. barnaverndarlaga skal Barnaverndarstofa vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum og hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknarstarf á sviði barnaverndar. Þá er Barnaverndarstofa til aðstoðar og leiðbeiningar fyrir barnaverndarnefndir í landinu, m.a. varðandi framkvæmd og túlkun barnaverndarlaga. Velferðarráðuneytið hefur eftirlit með starfi Barnaverndarstofu og skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar. Með framkvæmdaáætlun í barnavernd er horft til framtíðar og er hún grunnur að langtímaáætlun og stefnumörkun í málaflokknum.

Þrátt fyrir að barnaverndarlögin séu frá árinu 2002 er þetta aðeins í annað sinn sem lögð er fram tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd. Á vorþingi 2008 var samþykkt þingsályktunartillaga þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra um framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til sveitarstjórnarkosninga vorið 2010 og nú á vorþingi 2013 er til umfjöllunar framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til sveitarstjórnarkosninga vorið 2014. Samkvæmt barnaverndarlögum skal framkvæmdaáætlunin lögð fram til fjögurra ára í senn að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum. Þá metnaðarfullu framkvæmdaáætlun sem hér er til umfjöllunar verður því óhjákvæmilega að líta á í því ljósi að hún mun aðeins gilda í eitt ár. Hætt er við því að framkvæmdaáætlun í jafnmikilvægum málaflokki og barnavernd nái ekki markmiðum sínum þegar framkvæmd hennar er gefinn jafnskammur tími og raun ber vitni.

Hinn 20. febrúar sl. samþykkti Alþingi lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem í daglegu tali er nefndur barnasáttmálinn. Telur meiri hlutinn það fagnaðarefni og til þess fallið að styrkja réttindi barna. Reglur barnasáttmálans miða að því að tryggja börnum ákveðin réttindi auk þess sem sáttmálinn leggur margvíslegar skyldur á stjórnvöld, t.d. varðandi fræðslu og forvarnir. Meiri hlutinn leggur áherslu á að litið verði til barnasáttmálans við framkvæmd framkvæmdaáætlunarinnar eftir því sem við á hverju sinni.

Í framkvæmdaáætluninni er lögð áhersla á að viðhalda þeirri þekkingu sem til staðar er um málaflokkinn hjá Barnaverndarstofu og efla hana eftir þörfum sem og þekkingu hjá barnaverndarnefndum. Gestir sem komu fyrir nefndina sem og umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart framkvæmdaáætluninni og voru reifuð fjölmörg sjónarmið á fundum nefndarinnar. Meiri hlutinn telur rétt að nefna að fram komu athugasemdir þess eðlis að um óraunhæfa framkvæmdaáætlun væri að ræða að nokkru leyti þar sem fyrirsjáanlegt væri að nauðsynlegt fjármagn til að hrinda mörgum verkefnum hennar í framkvæmd væri ekki til staðar. Þá var einnig bent á að verkefnum í áætluninni væri ekki settur skýr tímarammi og þau ekki kostnaðargreind. Hér á eftir verður vikið að helstu atriðum sem meiri hlutinn telur rétt að fjalla um og leggja sérstaka áherslu á við afgreiðslu á málinu.

Hæstv. forseti. Ég tel mikilvægt, og það kom fram í nefndinni, að við gerð framkvæmdaáætlunar um barnavernd sé settur tímaramminn um hana eins og aðrar framkvæmdaáætlanir og áætlað fjármagn í hvern málaflokk. Nauðsynlegt er að huga að forvörnum og vakti það óneitanlega athygli meiri hlutans að í framkvæmdaáætluninni er ekki að finna tillögur sem snúa að forvörnum gegn ofbeldi. Litlu opinberu fé hefur verið varið til forvarna gegn ofbeldi en frjáls félagasamtök hafa að mestu leyti fjármagnað slíkar forvarnir. Hins vegar er töluverðu opinberu fé varið til forvarna í ýmsum öðrum málaflokkum. UNICEF á Íslandi hefur gefið út tillögur um leiðir til að minnka ofbeldi gegn börnum á Íslandi og er þar að finna tillögu um að sett verði á laggirnar ofbeldisvarnaráð sem hafi það hlutverk að sjá um samhæfingu aðgerða og framkvæmd forvarna gegn ofbeldi sem beinist að börnum.

Það er ekki eingöngu UNICEF sem berst gegn ofbeldi gegn börnum og kynbundnu ofbeldi gegn börnum heldur hafa Evrópuráðið og fleiri aðilar lagt áherslu á að þetta mein sem verið hefur til staðar sé grafið upp og gert opinbert þannig að hægt sé að bregðast við því bæði með forvörnum og stuðningi við þau börn og þær fjölskyldur sem fyrir ofbeldinu verða.

Tillaga UNICEF er nokkuð ítarlega útfærð í því skjali sem samtökin gáfu út 16. janúar síðastliðinn, en þar kemur fram að markmið ofbeldisvarnaráðs væri m.a. að auka fræðslu og aðrar aðgerðir gegn ofbeldi með áherslu á ofbeldi gegn börnum. Í því sambandi væri nauðsynlegt að líta á ofbeldi sem sérstaka ógn og að markvisst yrði barist gegn því líkt og gert hefur verið um aðra þætti í samfélaginu, t.d. bætt umferðaröryggi með notkun öryggisbelta og aðgerðum til að draga úr ölvunarakstri þar sem náðst hefur töluverður árangur. Þá ætti ráðið að styðja og hvetja til rannsókna á umfangi og eðli ofbeldis á Íslandi með sérstakri áherslu á ofbeldi gegn börnum. Er í því sambandi vikið að því að í aðgerðaáætlun þáverandi ríkisstjórnar árið 2006 var m.a. gert ráð fyrir því að gerð yrði heildstæð rannsókn á ofbeldi gegn börnum á Íslandi en sú rannsókn var hins vegar aldrei unnin. Þá mundi ofbeldisvarnaráð halda úti miðlægu gagnasafni um málaflokkinn og styðja aðgerðir til að draga úr eftirspurn eftir klámi og auka fræðslu um tengsl ofbeldis, vændis og kláms. Vísast að öðru leyti til útgefins skjals UNICEF um tillögur um leiðir til að minnka ofbeldi gegn börnum.

Í gær var haldinn fundur með fulltrúum UNICEF og fulltrúum nokkurra ungmenna sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þeir mynda sérfræðihóp innan UNICEF hér á landi til þess að móta og leggja áherslur á hvernig bregðast skuli við ofbeldi. Var fundurinn haldinn með nokkrum ráðherrum og kynntu ungmennin ráðherrum það sem þau höfðu sjálf upplifað og hvernig kerfið hafði brugðist við. Það var sterk upplifun fyrir alla þá hæstv. ráðherra sem á hlustuðu og mun örugglega skila sér inn í næstu framkvæmdaáætlun og eins verða forvarnir og ábendingar UNICEF teknar alvarlega. Meiri hlutinn telur því afar mikilvægt að í næstu framkvæmdaáætlun í barnavernd, sem leggja á fram eftir sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2014, verði fjallað um mikilvægi forvarna og verkefni sem UNICEF á Íslandi leggur til.

Tekið er á fjölmörgu öðru í áætluninni, eins og menntun starfsmanna og rannsóknum í málaflokknum, sem eru mjög mikilvægar. Nefndin fjallaði nokkuð um menntun þeirra starfsmanna sem vinna að barnaverndarmálum, hvort heldur er á Barnaverndarstofu eða í barnaverndarnefndum. Fyrir nefndinni kom fram að þeir starfsmenn sem vinna að erfiðustu málaflokkum barnaverndarmála væru undir miklu álagi og að menntun þeirra væri í mörgum tilfellum ekki sniðin að því erfiða starfi sem þeir eiga í vændum. Þörf væri á sérhæfðu framhaldsnámi með færni til að vinna að rannsóknum og þróun á aðferðum í málaflokknum í teymisvinnu með öðrum sérfræðingum innan stofnunar og utan. Þá kom einnig fram að skriflegum þætti barnaverndarstarfs væri ábótavant og stæði rannsóknarstarfi í málaflokknum fyrir þrifum.

Nefndin fjallaði einnig um stærð barnaverndarnefnda og hvort rétt væri að breyta lágmarksfjölda íbúa að baki hverri barnaverndarnefnd samkvæmt barnaverndarlögum, en samkvæmt ákvæðinu skal samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaga að baki hverri barnaverndarnefnd ekki vera undir 1.500 íbúum. Til samanburðar má geta þess að samsvarandi lágmarksfjöldi varðandi þjónustusvæði fyrir fatlað fólk, samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, eru 8.000 íbúar. Með fækkun barnaverndarnefnda væri hægt að efla þær sem eftir eru með auknum mannafla og meiri sérfræðiþekkingu. Rétt er að leita allra leiða til að efla barnaverndarstarf og nýta fjármuni sem best og ætti því m.a. að kanna hvort faglegar ástæður mæli með því að fækka barnaverndarnefndum. Væri það óháð því hvort farið yrði í sameiningu sveitarfélaga eða ekki, heldur bæri að líta á þá fyrirmynd sem við höfum hvað varðar þjónustusvæði fyrir fatlað fólk og horfa á barnaverndarnefndirnar og þá sérfræðiþjónustu sem þær verða að veita samkvæmt því.

Nokkuð var rætt um þjónustu á stofnunum og eru því gerð skil að orðið hefur viðhorfsbreyting til stofnanameðferða og dregið hefur verið úr því að börn séu vistuð á sérstökum stofnunum en þess í stað er fjölskyldum barna sem þurfa á þjónustu barnaverndaryfirvalda að halda veittur meiri stuðningur og aðstoð heima við þannig að ekki þurfi að taka barn af heimili sínu. Meðferðarheimilum fyrir börn hefur fækkað á síðustu árum en þau sem eftir eru hafa hins vegar styrkst hvað fagþekkingu starfsfólks varðar. Nú er lögð áhersla á stigskipta þjónustu og fjölkerfameðferð og aðkomu fleiri aðila en áður, t.d. í gegnum skólakerfið og félagsþjónustu sveitarfélaga. Hugmyndafræðin snýst sem sé um að halda börnunum í heimahögum og nýta traust fjölskyldunetsins þar sem það er til staðar í stað þess að fjarlægja börnin af heimilum sínum. En ekki verður horft fram hjá því að sum börn þurfa á vistun á stofnun að halda og telur meiri hlutinn mikilvægt að þau úrræði standi áfram til boða fyrir þau börn sem þurfa slíka vistun. Sú þróun sem orðið hefur upp á síðkastið er hins vegar jákvæð og þjónar hagsmunum flestra barna, en tryggja þarf að sú þróun verði um allt land svo öll börn og fjölskyldur þeirra, óháð búsetu, hafi aðgang að sambærilegum stuðningi.

Nokkuð var fjallað um þjónustu við fötluð börn og eru því gerð skil. Nefndin var sammála um að skilgreina þurfi fötluð börn sem sérstakan áhættuhóp með hliðsjón af þeirri viðkvæmu stöðu sem þau eru í. Er frekar gerð grein fyrir því hér í nefndarálitinu.

Einnig var rætt um nýja meðferðarstofnun, en hjá Barnaverndarstofu kom fram að lagt hefur verið til að sett verði á fót ný meðferðarstofnun sem verði aðallega fyrir unglinga á aldrinum 16–18 ára, sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda, sem hafa jafnvel lokið einni eða fleiri meðferðum á stofnunum Barnaverndarstofu og geta ekki nýtt sér önnur vímuefnameðferðarúrræði eða er ítrekað vísað burt úr slíkum úrræðum vegna hegðunarvandamála. Slík stofnun gæti einnig nýst til að þjónusta þá unglinga sem sæta gæsluvarðhaldi eða hafa hlotið óskilorðsbundna dóma og geta ekki eða vilja ekki afplána dóma á öðrum meðferðarheimilum Barnaverndarstofu eða að ekki er talið æskilegt að vista þá með öðrum unglingum á meðferðarheimilum.

Verði slík stofnun að veruleika væri tryggt að börn undir 18 ára aldri sem sæta gæsluvarðhaldi eða hljóta óskilorðsbundna dóma verði ekki vistuð í fangelsi með fullorðnum föngum. Er slík stofnun ein af skilyrðunum fyrir því að Ísland geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Frá því að Ísland fullgilti barnasáttmálann hefur verið í gildi yfirlýsing íslenskra stjórnvalda við ákvæði c-liðar 37. gr. barnasáttmálans, en í ákvæðinu er kveðið á um að vista skuli fanga undir 18 ára aldri aðskilda frá fullorðnum föngum. Eins og komið hefur fram hefur barnasáttmálinn nú öðlast lagagildi hér á landi og er því brýnt að leyst verði úr því hvernig vista megi gæsluvarðhaldsfanga undir 18 ára aldri sem og þá sem hlotið hafa óskilorðsbundna dóma aðskilda frá fullorðnum föngum.

Fyrir nefndinni kom einnig fram að rekstur stofnunar sem þessarar mundi kosta um 250 millj. kr. á ári og hefur Barnaverndarstofa eins og sakir standa ekki fjárveitingu til að mæta þeim kostnaði. Meiri hlutinn telur að leggja þurfi heildstætt mat á hvernig haga beri uppbyggingu nauðsynlegra stofnanaúrræða svo hægt verði að mæta kröfum barnasáttmálans um að börnum skuli haldið aðskildum frá fullorðnum föngum. Því þarf að kanna vel út frá faglegum sem og fjárhagslegum forsendum hvort möguleiki sé á að setja á fót nýja stofnun á gildistíma þessarar framkvæmdaáætlunar eða hvort önnur úrræði skuli könnuð.

Í framkvæmdaáætluninni er getið nokkurra tilraunaverkefna. Þar er fjallað um tilraunaverkefni sem starfrækt hafa verið síðustu ár, það kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Annars vegar er um að ræða verkefni vegna tilkynninga um heimilisofbeldi, en til þessa verkefnis hefur verið ráðinn sérfræðingur til að fara með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í útköll vegna heimilisofbeldis þar sem börn eru á heimilum. Sérfræðingurinn hefur það hlutverk að ræða við barnið, huga að líðan þess og meta hvaða stuðningur er viðeigandi fyrir barnið og veita í kjölfarið meðferð. Fyrir nefndinni kom fram að um mjög gott og þarft verkefni væri að ræða enda getur það haft alvarleg áhrif á börn og þroska þeirra að búa við heimilisofbeldi. Þá kom fram að rétt væri að meta árangur verkefnisins og halda því áfram ef árangur teldist góður. Einnig var um nokkur önnur verkefni að ræða sem getið er hér, en því miður hefur Barnaverndarstofa ekki fjármagn til að sinna þeim verkefnum sem lýst er í greinargerðinni. Telur meiri hlutinn það mjög miður, enda er um mikilvæg tilraunaverkefni að ræða þar sem sjónum er beint að hópi barna sem hingað til hefur verið töluvert afskiptalaus í kerfinu og fengið litla þjónustu en hefur augljóslega mikla þörf fyrir hana. Verði verkefnin lögð niður er það óheillaþróun en meiri hlutanum er þó fullljóst að Barnaverndarstofu er sniðinn þröngur stakkur hvað fjármagn varðar og að forgangsraða verður verkefnum innan stofnunarinnar.

Eins og ég sagði í upphafi er mikilvægt að kostnaðargreina málaflokkinn og að sú framkvæmdaáætlun sem gerð verður næst, sem er þá vonandi til fjögurra ára, sé tekin alvarlega. Meiri hlutinn telur mikilvægt að leitað verði allra leiða til að nýta fjármagn til málaflokksins sem best og auka fjárheimildir til barnaverndarmála eftir því sem frekast er unnt til að hægt sé að þróa áfram barnaverndarstarf hér á landi af miklum gæðum til hagsbóta fyrir öll börn sem þurfa á þjónustu að halda sem og fjölskyldur þeirra.

Svo segir hér að lokum, hæstv. forseti:

„Meiri hlutinn telur framkvæmdaáætlun í barnavernd mikilvæga sem stefnumótun í málaflokknum. Meiri hlutinn telur þó að framkvæmdaáætlun sem þessi þurfi að vera markvissari og með skýrum tímaramma fyrir hvert verkefni sem skulu kostnaðargreind svo hægt sé að meta hversu mikið fjármagn þurfi til að hrinda áætluninni í framkvæmd.“

Það verður ekki of oft gert að brýna þá sem leggja fram næstu áætlun að gera það með þessum hætti, þannig að framkvæmdaáætlun sé tekin alvarlega og fjármagn ætlað í málaflokkinn.

Meiri hlutinn leggur fram breytingartillögu um að velferðarráðuneytinu verði gert að gera velferðarnefnd Alþingis grein fyrir framvindu framkvæmdaáætlunarinnar á hverju vorþingi frá samþykkt hennar. Með því móti fái þingið nauðsynlegar upplýsingar til að að fylgja eftir framkvæmd áætlunarinnar. Meiri hlutinn telur einnig að við gerð framkvæmdaáætlunar sem þessarar skuli leitað samráðs við helstu hagsmunaaðila þannig að sem flestir komi að borðinu og öll sjónarmið komi fram. Meiri hlutinn telur því nauðsynlegt að þær athugasemdir sem fjallað hefur verið um verði teknar til athugunar við vinnu að næstu framkvæmdaáætlun barnaverndarlaga, þ.e. að leggja hana fram eftir næstu sveitarstjórnarkosningar vorið 2014.

Að því virtu leggur meiri hlutinn til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með svohljóðandi breytingu:

„Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi:

4. Eftirfylgni Alþingis.

Velferðarráðuneytið skal á hverju vorþingi frá samþykkt þingsályktunar þessarar gera velferðarnefnd Alþingis grein fyrir framgangi framkvæmdaáætlunarinnar á undangengnu ári á fundi nefndarinnar.“

Hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson og Unnur Brá Konráðsdóttir gerðu sérstaka bókun sem fylgir hér með og tel ég að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson muni vilja gera grein fyrir bókuninni þannig að ég les hana ekki upp.

Undir nefndarálitið skrifa auk mín hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Logi Már Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Einar K. Guðfinnsson, með fyrirvara, Unnur Brá Konráðsdóttir, með fyrirvara, og Guðmundur Steingrímsson.

Hæstv. forseti. Ég læt máli mínu lokið og hef kynnt nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd.