141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

virðisaukaskattur.

542. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er til að svara að forsvarsmenn gagnavera á Íslandi hafa verið hafðir með í ráðum við samningu frumvarpsins og fengnir til fundar við nefndina. Það er alveg ljóst að skattalegt umhverfi svokallaðrar blandaðrar þjónustu sem þeir selja frá sér hefur ekki með þessu verið leyst. Þeir telja að breytingarnar tryggi hins vegar að í hinum stærri hagsmunamálunum, meðal annars sem lúta að innflutningi á tækjum til starfseminnar, sé þetta lagaumhverfi traustara og öruggara fyrir iðnaðinn til þess að þróast áfram í en það sem í gildi hefur verið og eru eindregnir stuðningsmenn þess að málið nái fram að ganga.

Í framhaldinu verður áfram reynt að leita leiða til þess að tryggja ívilnanir varðandi blandaða þjónustu en þar er einkum um að ræða þegar fyrirtæki eru bæði að kaupa gagnageymsluþjónustu af viðkomandi fyrirtækjum en um leið að leigja af þeim húsnæði, til að mynda undir gagnageymslur. Hvernig með það skuli fara og hvernig hægt er að ívilna því skattalega er næsta flókið tæknilega en ákveðið var að láta afgreiðslu annarra þátta málsins ekki stranda á úrlausn þess efnis.

Ég hef ekki á takteinum nákvæman fjölda gagnaveranna en sannarlega má segja að þetta sé vaxandi grein í umsvifum hér. Hún er að leggja inn ný störf til þess að hjálpa okkur að takast á við þau verkefni sem við eigum við að glíma í því efnahagslega umhverfi sem Ísland býr við.