141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er óhætt að segja að ein af stærstu ákvörðunum þess þingheims sem senn lýkur kjörtímabili sínu er sú sem var tekin í júlí árið 2009, að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Vissulega hefur aðildarumsóknarferlið tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert, aðallega út af ytri ástæðum sem öllum eru kunnar. Samt sem áður er ferlið langt komið þó að við eigum eftir að útkljá og ræða við sambandið um þyngstu, veigamestu og mikilvægustu kaflana, þá sem lúta að landbúnaði og sjávarútvegi.

Hins vegar er deilt hart um það nú í aðdraganda kosninga hvort ljúka skuli aðildarumsóknarferlinu eða rjúfa það og annaðhvort hætta því eða kjósa um hvort því skuli haldið áfram. Það er óhætt að segja að orðið hafi straumhvörf í þeirri rökræðu í liðinni viku þegar nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins lýsti því afdráttarlaust yfir, fyrrverandi formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, að ljúka beri viðræðunum við Evrópusambandið og ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. Hann segir að í því liggi brýnustu almannahagsmunirnir. Undir þessi orð formanns Samtaka atvinnulífsins tek ég afdráttarlaust og bendi á að einnig birtist grein í vikunni eftir fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins sem talaði mjög í sömu veru þannig að það er víðtæk samstaða meðal þeirra sem teljast til aðila vinnumarkaðarins, Alþýðusambandsins, Samtaka atvinnulífs og Samtaka iðnaðarins, að ljúka beri aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og leyfa þjóðinni, fólkinu í landinu, að taka ákvörðun um það að lokum hvort við gerumst þar aðilar eða ekki út frá okkar brýnustu almannahagsmunum en ekki að það ferli (Forseti hringir.) verði rofið af þeim stjórnmálamönnum sem það vilja.