141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hélt að sá tími væri liðinn í þingsal þegar verið væri að reyna að semja um lok þinghalds að menn stæðu hér og hótuðu stjórnarandstöðunni eins og hv. þm. Skúli Helgason gerði.

Það er hins vegar alveg full ástæða til að koma aðeins inn á orð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar þar sem þingmaðurinn vitnar í formann Samtaka atvinnulífsins og formann Samtaka iðnaðarins. Þetta eru alveg eldgamlar fréttir. Þeir menn sem gegna nú þessum embættum hafa alltaf varið þetta vitleysisferli varðandi Evrópusambandið og hafa greinilega ekki verið í tengslum við þjóðina í mjög mörg ár, alveg sama hvaða embættum þeir gegna. Það er alveg ljóst.

Það er líka sérstakt að Samfylkingin skuli dreifa athyglinni frá stærstu málum þjóðarinnar sem eru að sjálfsögðu málefni heimilanna og hvernig á að koma atvinnulífinu á skrið. Væntanlega er núna verið að dreifa athyglinni með því að tala um Evrópusambandið út af því sem hefur komið fram um hagvöxt á Íslandi. Spár hafa brugðist, og af hverju ætli það sé? Vegna þess að stjórnvöld hafa ekki staðið sig í því stykkinu að skapa hér umhverfi til að hægt sé að auka hagvöxt. Hverjar voru helstu niðurstöðurnar á ársfundi Samtaka atvinnulífsins? Það var tvennt sem menn þar lögðu mesta áherslu á, annars vegar að eyða pólitískri óvissu og hins vegar að afnema gjaldeyrishöftin. Það er þetta sem áhersla var lögð á og þar hafa stjórnvöld algjörlega brugðist.

Það er mikið áhyggjuefni að þegar við erum að ljúka kjörtímabilinu, þegar ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert hinar og þessar áætlanir, samþykkt hinar og þessar stefnur, jafnvel skrifað upp á og lofað hinu og þessu, kemur í ljós að hagvöxturinn sem er forsenda þess að þessar áætlanir gangi eftir hefur algjörlega brugðist. Því miður, segi ég, vegna þess að svo virðist sem engin innstæða sé fyrir þeim loforðum sem ríkisstjórnin hefur gefið hér undanfarin missiri. Þar af leiðandi verður það að verða fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) að koma hagvextinum af stað, koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað.