141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að ræða sama mál og hv. þm. Illugi Gunnarsson. Ótal sinnum á síðustu missirum höfum við séð að hagvaxtarspár sem gengið hefur verið út frá við stjórn ríkisfjármálanna hafa einkennst af of mikilli bjartsýni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það gerist, að leiðréttingar eftir á sýna fram á að hagvöxtur undanfarinna missira hefur verið minni en spáð var. Þetta vekur auðvitað umhugsun um það á hvaða forsendum þessar spár eru gerðar. Það er áhugavert að rifja upp að í hagvaxtarspánum hefur oftar en ekki verið gert ráð fyrir stærri framkvæmdum, t.d. á sviði orkuvinnslu og stóriðju, sem ekki hafa gengið eftir

Nú vitum við að um slíkar framkvæmdir er gríðarlegur pólitískur ágreiningur en við getum hins vegar dregið þá ályktun af þeim hagtölum sem hér birtast að þegar einmitt ekkert er að gerast á þessu sviði, í stærri framkvæmdum á sviði orkuvinnslu og stóriðju, hefur það veruleg áhrif á hagvöxtinn í landinu. Það sem er auðvitað athyglisvert líka er að það hefur þá ekki leitt til þess að allt blómgist hjá öðrum hlutum atvinnulífsins. Stundum er talað á þann veg að menn þurfi að velja á milli orkuvinnslu og stóriðju annars vegar og hinna atvinnugreinanna hins vegar, en aðrar atvinnugreinar, þær sem standa fyrir utan þennan orkufreka iðnað, hafa ekki náð að keyra upp hagvöxt svo neinu nemi (Forseti hringir.) miðað við þessar tölur.

Þetta er umhugsunarefni, sérstaklega þegar við horfum á loforðalistana sem nú birtast fyrir kosningar.