141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Fyrst ætla ég að gera athugasemd við heldur skondin ummæli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um að straumhvörf hafi orðið í Evrópusambandsmálum með yfirlýsingum nýkjörins formanns Samtaka atvinnulífsins um að ekki ætti að slíta viðræðum við Evrópusambandið. Nýkjörinn formaður sagði að vísu eitthvað í þá veru, en hann dró verulega í land frá því sem forverar hans hafa haldið fram og þá sérstaklega sá sem var síðast á undan honum sem vildi með öllum tiltækum ráðum komast inn í Evrópusambandið og það hið fyrsta. Nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins hafði hins vegar mun meiri vara á sér gagnvart Evrópusambandinu. Ef það voru að verða straumhvörf með yfirlýsingum hans voru þau frá Evrópusambandinu en ekki að því.

Ég ætlaði þó fyrst og fremst að nefna þessar nýju og mjög alvarlegu fréttir um hagvaxtarþróun á Íslandi og það tilefni sem það gefur okkur til að nýta tímann sem eftir er af þinginu til að fara yfir allar forsendur þeirra áætlana sem menn gera hér til framtíðar. Þessar tölur þýða að áætlanir sem gerðar hafa verið og hrint hefur verið í framkvæmd að nokkru leyti, eins og fjárlög fyrri ára, hafa ekki staðist, áætlanir til framtíðar, til næstu ára. Það má nefna sem dæmi svokallaða fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem er nú farin að hljóma eins og eitthvert grín þegar við heyrum af því að fjárfesting sé enn að dragast saman eftir að hafa verið í sögulegu lágmarki allt þetta kjörtímabil. Slíkir hlutir eru í uppnámi núna eftir þessar nýjustu tölur um hagvaxtarþróun. Því er óhjákvæmilegt að taka þetta allt saman til umræðu og endurskoðunar í þinginu og mikilvægt að nýta þá daga sem eftir eru, m.a. til þess að hægt sé að gera ráðstafanir og áætlanir til að snúa þessari þróun við. Við viljum væntanlega vinna að því öll í sameiningu eftir kosningar að snúa þessari þróun við (Forseti hringir.) og því er æskilegt að ræða þetta bæði fyrir kosningar og eftir.