141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessar umræður um atvinnulífið og hagvöxtinn. Ég er einn af kannski fjölmörgum þingmönnum sem voru við setningu aðalfundar Samtaka atvinnulífsins í liðinni viku og þegar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson talar um að straumhvörf hafi orðið í andstöðu SA til Evrópusambandsaðildar er það hlægileg nálgun. Förum aðeins yfir aðalumræðuefnið á setningarathöfn Samtaka atvinnulífsins og í þeim opnunarávörpum og erindum sem voru flutt, það var aðallega það að ríkisstjórnin yrði að snúa sér að atvinnuuppbyggingu, að því að bæta umgjörð atvinnulífsins, koma hagvexti af stað í þjóðfélaginu og eyða óvissu í íslensku samfélagi.

Ríkisstjórninni hefur algerlega mistekist í þessu efni og það er það sem fréttir eru af núna. Fjárfesting var svipuð í fyrra og árið 1997. Það var í fréttum Ríkisútvarpsins í gær. Fjárfesting hefur ekki verið minni í uppbyggingu í atvinnulífi hér frá árinu 1997 og hagvöxtur minnkar á hverju ári. Ég ætla að grípa ofan í þá frétt, með leyfi frú forseta:

„Í þjóðhagsreikningunum kemur fram að fjárfestingar að raungildi voru álíka miklar hér og árið 1997. Þá er hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslunni í sögulegu lágmarki, tæp fjórtán og hálft prósent, meðan það er um tuttugu prósent í löndum OECD.“

Á þetta ekki að vera okkar stóra verkefni á síðustu dögum þingsins? Það hefði átt að vera að koma einhverjum jákvæðum skilaboðum út í atvinnulífið til að bæta stöðu fyrirtækja, heimila og ekki hvað síst ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Ef eitthvað er er þetta það sem kallað var eftir á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins og þetta eigum við þingmenn (Forseti hringir.) að grípa á lofti. Við eigum að taka höndum saman hvað þetta snertir.