141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara inn í umræðu um ESB-málið. Ég vísa í því sambandi í ágæta samþykkt landsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá því fyrir skemmstu, hófsama og yfirvegaða samþykkt sem er til þess fallin að geta sameinað bæði andstæðinga og fylgismenn ESB-aðildar á bak við sig. Þar kveður því við annan tón en í nýlegri samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins eins og lesa má um í ágætri og athyglisverðri grein eftir guðsmanninn Þóri Stephensen í Fréttablaðinu í morgun.

Ég ætla aðeins að víkja að því sem hér hefur verið sagt um stöðu efnahagsmála. Það er eðlilegt að menn hafi áhyggjur af stöðu efnahagsmála og atvinnumála hér á komandi árum. Það var alveg ljóst að það að snúa við þróuninni eftir hið gríðarlega hrun 2008 með þeim afleiðingum sem það hafði í för með sér yrði langhlaup og ekki lokið á einu kjörtímabili þó að nú komi sumir og tali eins og þeir hefðu gert allt betur, jafnvel þeir sem skildu allt eftir í rjúkandi rústum, samfélagið, efnahagslífið, atvinnulífið, á haustmánuðum 2008 og í ársbyrjun 2009. Það er ekki stórmannlegt og það er mikilvægt að menn hafi í huga að það verkefni að koma ríkisfjármálunum í jafnvægi, sem núverandi ríkisstjórn hefur tekist, er undirstaða þess að við getum haldið áfram að þróa okkar samfélag, efla hagvöxt, styrkja atvinnulífið og koma styrkari stoðum undir samfélagið allt, þar með talið velferðarkerfið sem við höfum staðið vörð um eftir fremsta megni, þar með talið menntakerfið. Þess vegna er ánægjulegt að sjá á dagskránni í dag mál sem lúta að þessum þáttum, eins og Lánasjóð íslenskra námsmanna, eins og ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, eins og stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, og ég vonast til þess að þeir sem mest tala um að (Forseti hringir.) nú þurfi eitthvað að gerast í þessum málum sjái þá til þess og hjálpi okkur í því að þessi mál komist áfram í vinnslu á vettvangi Alþingis að loknum þessum degi.