141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson gerði hagvöxt á síðasta ári að umtalsefni og skort á framkvæmdum í landinu til að auka hagvöxt. Það má alveg taka undir að auðvitað eru það vonbrigði að hagvöxtur skuli ekki hafa verið meiri. Auðvitað eru það líka vonbrigði að framkvæmdir skuli ekki vera meiri.

Nýlega bárust þau skilaboð að erlendir fjárfestar vildu ekki byggja hótel við hliðina á Hörpu. Hvers vegna var það? Var það slæmri ríkisstjórn að kenna? Nei, það voru meðal annars gjaldeyrishöft, meðal annars var krónunni kennt um, meðal annars því að landið væri frekar lokað fyrir erlendri fjárfestingu. (SDG: Þú vildir …) Ætli þeir hafi kannski hlustað á samþykktir landsfundar Sjálfstæðisflokksins þar sem á að loka landinu enn þá meira en hefur verið hingað til? Það skyldi þó ekki vera, virðulegi forseti.

Þegar við erum að tala um þetta verða menn að vera sanngjarnir og tala um að það hefur verið fjármálakreppa í fleiri löndum en á Íslandi, m.a. í Evrópu. Það hefur dregið úr vilja til að fara í fjárfestingar og það fundum við til dæmis í morgun á fundi atvinnuveganefndar þar sem framkvæmdir á Bakka við Húsavík voru ræddar. Spurt var hvers vegna það hefði tafist og hvers vegna lægi á að klára fyrirliggjandi frumvörp. Svona má lengi telja.

Af því að Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýnir þetta hvað mest er vert að rifja upp að hann minnist ekki á að það er verið að byggja hjúkrunarheimili fyrir 15–20 milljarða hringinn í kringum landið. Hann talar ekki heldur um þær opinberu framkvæmdir sem eru í gangi.

Virðulegi forseti. Má ég minna á að í opinberum framkvæmdum hefur Sjálfstæðisflokkurinn lýst yfir andstöðu sinni, t.d. við framkvæmd um byggingu Vaðlaheiðarganga og við hugmynd að byggingu Landspítala. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti öllum þessum framkvæmdum. Hvernig vogar hann sér hv. þingmaður, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, að koma hingað og gagnrýna þetta? Ég held að sjálfstæðismenn ættu að líta í eigin barm, þeir eru á móti þessum þáttum, koma svo reglulega upp og gaspra (Forseti hringir.) um lítinn hagvöxt og að það gangi ekkert að koma atvinnulífinu í gang þegar þeir eru sjálfir hvað mest á bremsunni og gagnrýna þau atriði sem þó er verið að reyna að koma til framkvæmda á Íslandi.