141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það eina sem vantaði í ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um það hvers vegna væru að verða mikil straumhvörf og ný tíðindi varðandi umsóknina að Evrópusambandinu var að hann benti á að hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson væri orðinn opinn fyrir því að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það voru einu (Gripið fram í.) nýju tíðindin sem vantaði.

Ég legg sérstaka áherslu á hversu mikilvægt það er að Alþingi bregðist við þessum miklu tíðindum um mun lakari hagvöxt að undanförnu en útlit var fyrir. Þetta þýðir að allar áætlanir eru í uppnámi, allar áætlanir sem ríkisstjórnin hefur gert í efnahagsmálum, þar með talið áform hennar um útgjöld á ýmsum sviðum. Þess vegna er mjög mikilvægt að nýta þann tíma sem eftir er af þinginu til að fara yfir þessar áætlanir og þessi áform. Forsendurnar eru algjörlega brostnar. Það liggja reyndar fyrir þinginu nokkur ágæt útgjaldafrumvörp, frumvörp sem munu hafa för með sér miklar endurbætur á sínum sviðum en það vantar fjármagnið til að standa undir þeim, þó sérstaklega núna eftir þessi nýjustu tíðindi varðandi hagvöxtinn. Þess vegna er svo mikilvægt samhliða umræðu um þessi ágætu frumvörp að við ræðum hvernig við ætlum að fjármagna þetta, hvernig við munum bregðast við tíðindunum um samdrátt í hagvexti til að standa undir þessu.

Af því að hv. þm. Kristján L. Möller nefndi sérstaklega fyrirhugaða hótelbyggingu við Hörpu sem svo var hætt við gleymdi hv. þingmaður að nefna það sem virtist standa upp úr í þeirri ákvörðun, sú pólitíska óvissa sem ríkir á Íslandi og hefur líklega ráðið hvað mestu um að hér hefur ekki verið ráðist í nema brot af, og nánast ekki neitt, af þeim tugum góðra alvörufjárfestingarverkefna (Forseti hringir.) sem hér hafa verið til skoðunar (Forseti hringir.) á undanförnum árum.