141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:28]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. menntamálaráðherra innilega til hamingju með þetta mjög svo góða mál um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Eins og við höfum oft rætt er lánasjóðurinn ein af undirstöðum velferðarsamfélagsins, félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggir aðgengi allra að menntun, bæði iðnmenntun og háskólamenntun, óháð efnalegum bakgrunni. Því er þetta gríðarlega mikilvægt mál. Sú breyting sem hér er lögð til er ein af þeim sem styrkir enn stoðir sjóðsins sem félagslegs jöfnunarsjóðs.

Ég flutti í félagi við níu aðra þingmenn Samfylkingar árið 2005 á Alþingi frumvarp til laga sem hafði þrjú markmið, í fyrsta lagi að afnema ábyrgðarmannakröfuna á námslánum, í öðru lagi að 30% af teknu láni breyttust í styrk ef námstíma lyki á tilskildum tíma, samkvæmt reglum viðkomandi skóla, og í þriðja lagi að upp yrðu teknar samtímagreiðslur námslána.

Nú má segja að gangi þetta frumvarp eftir og verði að lögum, sem ég vona svo sannarlega að það geri og trúi ekki öðru, hafi tvö af þessum þremur markmiðum náðst.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji að það sé svigrúm innan tíðar til að þriðja markmiðið náist (Forseti hringir.) einnig, að samtímagreiðslur verði teknar upp á námslán þannig að námsmenn þurfi ekki að fara í bankann og taka yfirdráttarlán til að brúa bilið.