141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:30]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það. Ég held að það hafi verið rétt ákvörðun hjá nefnd og ráðherra að þetta skref væri gott að taka núna og hitt skrefið innan tíðar. Þess ber auðvitað að gæta að kostnaðurinn við breytinguna er einskiptisaðgerð. Ákvörðunin var á sínum tíma tekin fyrir tveimur og hálfum áratug til að spara sjóðnum útgjöld á því ári og vinna á erfiðleikum sem sjóðurinn stóð þá frammi fyrir.

Ég er ánægður með að heyra að ráðherra sé sammála um að þetta sé markmið sem við þurfum að ná líka. Ég vona að við náum innan tíðar öllum þessum þremur markmiðum sem ég taldi upp áðan úr frumvarpi til laga sem við fluttum hér nokkrir þingmenn. Hv. fyrrverandi þingmaður Sigríður Jóhannesdóttir hafði upphaflega veg og vanda af að semja það og við önnur fluttum það svo síðar í annarri mynd. Það er mikið ánægjuefni að þetta sé í farvatninu og ég tel að við hljótum að skoða það fljótlega í framhaldinu, þegar þetta verður orðið að lögum, að samtímagreiðslur verði teknar upp þannig að við höfum náð öllum þessum helstu markmiðum til að treysta (Forseti hringir.) mjög svo undirstöður þessa félagslega jöfnunarsjóðs í (Forseti hringir.) samfélaginu.