141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:32]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna líka framlagningu þessa frumvarps þar sem um er að ræða nokkrar mikilvægar breytingar á námslánafyrirkomulaginu. Því miður ganga þessar breytingar að mínu mati ekki nógu langt. Þó að reynt sé að fara í áttina að norræna námslánakerfinu er tekið mjög stutt skref í þessu frumvarpi. Ég mundi nú reyndar vilja kalla styrkjakerfið niðurfellingu. Styrkur í mínum huga er eitthvað sem er borgað út í hönd en ekki niðurfelling á láni sem tekið hefur verið. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því.

Auk þess fann ég hvergi í þessu frumvarpi ákvæði um að hægt væri að biðja um niðurfellingu á námslánum vegna örorku og veikinda. (Forseti hringir.) Er það rétt?