141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er hárrétt sem hún segir, þetta hefur gengið undir nafninu styrkjakerfi en eins og ég sagði í framsögu minni er í raun verið að fella niður hluta höfuðstóls. Það má kalla það styrk eða niðurfellingu, en niðurfelling er það því að það er ekki greitt út sem styrkur heldur er felldur niður hluti af höfuðstól.

Síðan spurði hv. þingmaður hvort rétt væri að geta sett inn heimild til að fella niður aukinn hluta námslána, eins og ég skildi orð hennar, ef til að mynda viðkomandi væri öryrki. Það held ég að sé þess virði að skoða. Það er ekki gert ráð fyrir sérstökum heimildum til aukinna niðurfellinga í þessu frumvarpi. Það er gert ráð fyrir heimildum til þess að gefa svigrúm í námstíma, eins og ég nefndi áðan, en það er væntanlega unnt að skoða.