141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé tilbúinn að skoða auknar heimildir til þess að fella niður námslán, m.a. vegna örorku og veikinda. Það ákvæði er að finna í frumvarpi sem er þingmál nr. 21 og ég lagði fram um breytingar á lánasjóðnum. Í því frumvarpi er meðal annars lagt til að ábyrgð ábyrgðarmanna falli niður við 67 ára aldur. Það ákvæði er komið inn í frumvarp hæstv. ráðherra. Þar er líka ákvæði um að fella niður lán vegna veikinda og örorku og það sem ég tel jafnframt mikilvægast, að fella niður eftirstöðvar námslána við 67 ára aldur.

Ég tel að hv. menntamálanefnd eigi að skoða þessi tvö frumvörp saman og reyna að finna leið til þess að útvíkka niðurfellinguna til þeirra sem ná 67 ára aldri sem lið í því að setja niður (Forseti hringir.) deilurnar sem eru innan heilbrigðisgeirans í kjaramálum. (Forseti hringir.) Þar eru margar stéttir sem eru of láglaunaðar til að klára að greiða niður (Forseti hringir.) námslán á starfsævinni.