141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tel að hv. þingmenn gætu sameinast þvert á flokka um að skoða þetta mál með opnum huga eins og hv. þingmaður sagði. Það er alveg hárrétt sem hann sagði, það er tímabært að taka þetta kerfi til endurskoðunar í ljósi allra þeirra breytinga sem hafa orðið. Ég mun leggja mig fram um að veita nefndinni sem mestar upplýsingar um þennan mun á kostnaðarmati.

Ég nefndi áðan að sérstakt minnisblað verður sent um það og þar fyrir utan höfum við óskað eftir úttekt Hagfræðistofnunar. Ég vonast til að það verði til að skýra málið. Hvað varðar tímann átta ég mig á því að það er lítill tími til stefnu. Við verðum bara að sjá hvað við náum langt á þeim tíma sem eftir er.