141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Á sama hátt og það er mikilvægt að fara í endurskoðun af þessu tagi er líka mikilvægt að vanda til hennar þannig að við verðum að nálgast málið með því hugarfari. Þá er gott að þannig sé frá málum gengið að við höfum fjármuni til þess að tryggja það að hin jákvæðu markmið frumvarpsins nái fram að ganga. Það er auðvitað áhyggjuefni í mörgum tilvikum að á þingi eru lögð fram frumvörp sem vissulega taka á málum sem flestir geta verið sammála um að rétt sé að taka á, frumvörp sem fela í sér ýmsar réttarbætur, leiðréttingar og lagfæringar. Við ræddum fyrr í vikunni um umsvifamikið frumvarp um almannatryggingar sem er líka þess eðlis að það er á margan hátt til bóta. (Forseti hringir.) En við verðum líka að hafa, hæstv. forseti, kostnaðarhliðina á hreinu því að við getum ekki gefið falskar vonir með því að samþykkja mál sem ekki eru síðan til peningar fyrir.