141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[12:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Launin okkar eru ekki verðtryggð en lánin okkar eru það. Ef við ætlum að taka á lánum þeirra sem eru með verðtryggð námslán í Lánasjóði íslenskra námsmanna er spurning hvort við ætlum að gera það sama fyrir þá sem eru með verðtryggð húsnæðislán og hafa lent í sömu verðbólguskotum.

Þetta er spurning sem ég get ekki svarað á þessari stundu. Við hv. þingmaður erum hins vegar sammála um að það þurfi að skoða þessa verðtryggingu og hvort framkvæmd hennar standist lög. Það er eitt verkefni. Hér heyrðist í salnum frá hv. þm. Pétri H. Blöndal að útreikningur verðtryggðra námslána væri undanþeginn tilskipuninni. Það kann að vera, ég þekki það ekki og þarf þá að skoða það frekar. Ef svo er mun það ekki falla undir ólögmæti í framkvæmdinni.

Hins vegar tek ég undir með hv. þingmanni, miðað við útreikning lána er föst greiðsla í upphafi árs, einhvern tímann í maímánuði, í kringum 120 þúsund, algjörlega óháð því hvaða tekjur fólk hefur og á hvaða aldri það er. Seinni hluta ársins, að mig minnir í september, er svo afborgun námslánsins tengd tekjum launþega frá fyrra ári. Þarna er ákveðið samspil og það er alveg ljóst að ýmsar stéttir eru í vandræðum með þessi námslán sín. Fólk fætt 1967/1968 sem fór í dýrt framhaldsnám situr uppi með afar dýr námslán og þá er spurning hvernig á að bregðast við því. Eins og við hv. þingmenn vitum eru (Forseti hringir.) lögin sjaldnast afturvirk þannig að 12. gr., um ívilnanir á styrkjum, mun ekki ganga til þeirra.