141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[12:03]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að tilskipun ESB um neytendalán undanskilur námslán en það væri mjög einkennilegt að hafa námslán með verðtryggingu sem hafa verið dæmd ólögleg sem lánaform til einstaklinga. Ég held að það sé ekki æskilegt að vera með slíka mótsögn í lánum til einstaklinga. Það mál þarf meiri umræðu, hvernig eigi að tempra að minnsta kosti verðtryggingu námslána. Við höfum mikið talað um forsendubrest fasteignalána og það hefur svo sannarlega orðið forsendubrestur námslána. Forsendubrestur lána var leiðréttur að einhverju leyti hjá þeim sem lentu í 80% verðbólgu 1983 en á sama tíma tók hópur námslán sem hækkuðu um þessi 80% og sá hópur hefur ekki fengið neina leiðréttingu eða viðurkenningu á þeim forsendubresti. Síðan hafa önnur verðbólguskot bæst ofan á.

Það fer að styttast í að hópurinn hefji töku lífeyris og þá hugsa ég að það verði ansi erfitt fyrir hann að standa í skilum með föstu greiðslurnar og síðan tekjutengdar greiðslur af námslánum. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hún vilji skoða að láta fella niður eftirstöðvar námslána við 67 ára aldur eða þegar taka lífeyris hefst.