141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[12:07]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum afar mikilvægt mál, breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég vil byrja á að láta koma skýrt fram að það er mikið fagnaðarefni að þetta frumvarp sé komið fram. Þetta er örugglega eitthvert mikilvægasta þingmál sem komið hefur fram í þessum málaflokki, menntamálunum, á þessu kjörtímabili og einu fyrirvararnir í mínu brjósti eru þeir að það eru ákveðin vonbrigði hve seint þetta kemur fram. Það að það komi ekki fram fyrr en sex dögum áður en þingi á að ljúka setur okkur augljósar skorður varðandi það að frumvarpið verði að lögum.

Ég vil byrja á að fagna því sérstaklega að hæstv. menntamálaráðherra hefur ákveðið að bregðast við þeim deildu meiningum sem koma fram annars vegar í kostnaðarmati mennta- og menningarmálaráðuneytisins og hins vegar fjármála- og efnahagsráðherra með því að láta fara fram sérstaka greiningu á þjóðhagslegum áhrifum þessa frumvarps sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinni. Ég held að það sé afar mikilvægt til að fá nákvæmlega úr því skorið hvaða áhrif þetta frumvarp mun hafa.

Þetta frumvarp hefur að geyma stefnumál sem við jafnaðarmenn í Samfylkingunni höfum barist fyrir árum saman. Ég held að það sé kominn um það bil áratugur síðan þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fyrst fram frumvarp um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Þar voru áhersluatriðin þrenns konar sérstaklega, í fyrsta lagi að fella brott ábyrgðarmannakerfið, í öðru lagi að taka upp blandað kerfi styrkja og lána, í þriðja lagi að hverfa frá því óheillaspori sem var stigið árið 1992 þegar því fyrirkomulagi var breytt að námslán væru borguð út mánaðarlega á námstíma og farið yfir í þetta eftirágreiðslukerfi sem síðan hefur verið við lýði og ég mun koma betur að síðar.

Tvennt afar mikilvægt hefur gerst í þessum málaflokki varðandi lánasjóðinn á kjörtímabilinu. Í fyrsta lagi var eitt af þessum þremur skrefum stigið, þ.e. að afnema ábyrgðarmannakerfið, það var eitt af fyrstu verkum hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Í öðru lagi hefur grunnframfærsla námslána hækkað verulega, um ríflega þriðjung á kjörtímabilinu, og síðan er í þriðja lagi komið fram þetta frumvarp sem miðar að því, og það er stærsta nýjungin, að námslán breytist að hluta í styrk. Við í Samfylkingunni lögðum á sínum tíma til að 30% námslána yrði breytt í styrk og hér er talað um 25%.

Það er ýmislegt fleira sem er mjög til bóta í frumvarpinu. Það er lögfest heimild til að lána til frumgreinanáms og annars aðfaranáms háskóla en slíkt nám hefur aukist verulega á undanförnum árum. Flóttamenn og þeir sem hafa hér dvalarleyfi eiga rétt til námslána í framtíðinni samkvæmt þessu frumvarpi. Skuldbinding ábyrgðarmanns fellur niður við 67 ára aldur eða andlát og heimild til þess að endurheimta ofgreidd námslán, þ.e. endurgreiða ef námsmenn hafa greitt of mikið til baka, er sömuleiðis hluti af þessu frumvarpi.

Þá er líka afar mikilvægt að heimild til námslána vegna starfsnáms og listnáms á framhaldsskólastigi er í fyrsta sinn lögfest ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Þessar greinar skipta afar miklu máli fyrir framþróun í atvinnulífinu. Það er mjög tilfinnanlegur skortur á starfsfólki með þessa menntun og mikilvægt að stjórnvöld líti til þess hvernig hægt sé að ýta undir það að fleiri nemendur velji nám af þessu tagi.

Hins vegar má segja að þegar við horfum á Lánasjóð íslenskra námsmanna í samhengi við menntamálin almennt og íslenskt skólakerfi dragast fram ýmsar staðreyndir sem við þurfum að taka afstöðu til og hafa kannski að einhverju leyti áhrif á svigrúm okkar til aðgerða í þessum málaflokki. Það er einkennandi fyrir íslenskt menntakerfi að háskólakerfið er hér mjög undirfjármagnað miðað við háskólakerfi annarra landa. Sömuleiðis hefur það verið þróunin eftir hrun að það er mikil fjölgun námsmanna sem leggja stund á háskólanám og allverulegur hluti þeirra sem skólarnir fá ekki greitt fyrir, sérstaklega Háskóli Íslands. Það er líka athyglisvert eins og kemur fram í kostnaðarumsögn með frumvarpinu að skólagjaldalán hafa aukist mjög verulega á undanförnum árum. Fjárhæð þeirra hefur nær fjórfaldast frá gildistöku laganna 1992.

Það hefur líka verið talsverð aukning í lánshæfu námi og háskólum hefur fjölgað úr fjórum í sjö frá gildistöku laganna 1992, auk þess sem háskólasetur eru mun fleiri en var á þeim tíma. Hins vegar er gleðilegt að námslánakerfið sem slíkt stendur býsna traustum fótum í dag. Eiginfjárstaða LÍN er mjög traust, núvirt eigið fé 32 milljarðar, en hins vegar aukast útlánin nú mjög hratt, fjöldi lánþega hefur tvöfaldast á 20 árum og útlánin þrefaldast.

Áætlað er að 14% af útistandandi námslánum verði ekki endurgreidd. Veruleg óskilvirkni í menntakerfinu er líka áhyggjuefni, og hefur verið um árabil. Hún lýsir sér í því að námsmenn eru margir hverjir lengi í námi. Þetta á sérstaklega við um þá sem leggja stund á starfsnám. Þar er sláandi að meiri hluti þeirra sem útskrifast af starfsnámsbrautum er eldri en 25 ára. Þetta eru einstaklingar sem margir hverjir hafa reynt fyrst fyrir sér á bóknámsbrautum, kannski út af ríkjandi viðhorfum í samfélaginu og ákveðnum fordómum gegn starfsnámi eða verk- og tækninámi, en þeir hafa síðan á endanum fundið fjölina sína, farið í starfsnám og náð þar ágætum árangri.

Það hlýtur að vera eitt af markmiðunum með þessu frumvarpi, því skrefi að það er settur inn hvati fyrir námsmenn til að ljúka námi á tilskildum tíma af því að þá eigi þeir kost á því að hluti námsláns verði afskrifaður sem styrkur, þ.e. að þetta muni auka skilvirknina og að allur þorri nemenda muni ljúka námi á tilskildum tíma. Það á að spara á móti í háskólakerfinu sem ætti þá að koma fram í þessari athugun sem hæstv. ráðherra hefur ákveðið að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands láti vinna á þjóðhagslegum áhrifum þessa frumvarps.

Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli á því að engar takmarkanir séu á rétti einstaklinga til námslána og hefur velt því upp hvort rétt sé að miða heildarskuldsetningu lánþega við áætlaða endurgreiðslumöguleika þeirra. Slíkar hugmyndir eru ekki í þessu frumvarpi en þessi sjónarmið þarf vitanlega að fara í gegnum og skoða. Sömuleiðis má segja að það eru mjög litlar takmarkanir á því hvort þeir sem taka námslán hafi raunverulega þörf fyrir þau. Það eru ekki miklar skerðingar vegna annarra tekna en námslána. Fyrirkomulagið er þannig núna að aðrar tekjur skerða námslánið ekki nema um 35% umfram frítekjumörk. Frítekjumarkið er mjög lágt, 750 þús. kr. á ári, sem þýðir að hver nemandi má ekki hafa nema í kringum 60 þús. kr. á mánuði í aðrar tekjur áður en námslánið fer að skerðast. Má vel halda því fram að það væri meira í anda jöfnunarhlutverks sjóðsins að hækka frítekjumarkið umtalsvert en auka hins vegar skerðingar vegna annarra tekna umfram frítekjumarkið.

Ég hef farið yfir það að þessar breytingar sem mest munar um í þessu frumvarpi ríma vel við stefnu okkar í Samfylkingunni að öðru leyti en því að hér er ekki stigið skref til þess að taka aftur upp mánaðarlegar greiðslur námslána. Það er afar mikilvægt atriði sem ég vil fara nokkrum orðum um.

Nú eru liðin rétt rúm 20 ár frá því að námslánakerfinu var breytt í grundvallaratriðum að kröfu Sjálfstæðisflokksins. Þá voru vextir settir á námslán, endurgreiðslur voru hækkaðar og teknar upp þessar eftirágreiðslur námslána, þ.e. námslánin hættu í reynd að vera lán til framfærslu námsmanna á námstímanum heldur voru veitt sem lán eftir á, þegar námsmaður hafði staðist próf og lokið viðkomandi námskeiðum á umræddu missiri. Þetta hafði þær afleiðingar að námsmenn voru í reynd þvingaðir til þess að taka skammtímalán með yfirdráttarvöxtum í bönkum til að brúa bilið meðan beðið var eftir prófúrlausnum. Tilgangurinn var skiljanlegur, að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu lánasjóðsins á þessum tíma, en þarna var refsivendinum, ef svo má segja, beitt með afar ómálefnalegum hætti og án nokkurs meðalhófs. Allur þorri námsmanna var látinn gjalda fyrir það að lítill hluti þeirra skilaði ekki tilskildum námsárangri.

Þetta kerfi er enn við lýði. Námsmenn þurfa að taka yfirdráttarlán með 7–8% vöxtum í stóru bönkunum samkvæmt sérstökum vildartilboðum bankanna. Við í Samfylkingunni höfum barist gegn þessu árum saman og það er forgangsmál á nýju kjörtímabili að leita leiða til þess að vinda ofan af þessu kerfi. Það kostar hins vegar verulega fjármuni að stíga þetta skref. Hæstv. menntamálaráðherra upplýsti í ræðu sinni að þetta skref kostar 3–5 milljarða en þetta er hins vegar einskiptisaðgerð sem þarf að borga einu sinni en fylgir okkur ekki inn í framtíðina. Það skiptir afar miklu máli í núverandi efnahagsástandi.

Það má líka vel hugsa sér að breytingin að fara aftur í mánaðargreiðslurnar kæmi til í áföngum þannig að fyrst yrði byrjað á því að greiða mánaðarlega til þeirra nemenda sem eru komnir vel áleiðis í námi og hafa þegar sýnt fram á að þeir eru í aðstöðu til þess að skila tilætluðum námsárangri og endað á nýnemum sem eðli málsins samkvæmt eru ekki í þeim sporum. Það mundi dreifa kostnaðinum á lengra tímabil og gera verkefnið viðráðanlegra.

Virðulegi forseti. Ég hef farið í gegnum það sem ég tel afar mikilvægt í þessu frumvarpi og reifað síðan hvert við þurfum að líta í framhaldinu. Við erum með í höndunum þetta frumvarp sem kostar samkvæmt útreikningum mennta- og menningarmálaráðuneytis 2,3 milljarða. Fjármálaráðuneytið telur í kostnaðarumsögn sinni að kostnaðurinn geti verið umtalsvert meiri, rúmir 3 milljarðar eða jafnvel allt upp í 4,7 milljarða, og er þá miðað við mismunandi forsendur um það hversu margir nemendur muni nýta sér þessar breytingar á kerfinu. Þetta gefur að sjálfsögðu tilefni til að fara vel yfir málið í nefndinni því að þetta eru umtalsverðar upphæðir. Ég ítreka að stóra málið er að hér er verið að boða verulegar breytingar til hagsbóta fyrir nemendur á þessu námslánakerfi. Vissulega mundu þessar breytingar ekki nýtast þeim nemendum sem núna eru í námi en koma til framkvæmda fyrir þá nemendur sem hefja nám 2014 og ekki síst í því samhengi tel ég mikilvægt að menn fari af alvöru í að skoða breytingar á þessum eftirágreiðslum til að koma til móts við þá nemendur sem núna eru í námi.

Hér hafa menn nefnt verðtrygginguna. Vissulega var það stórt og afdrifaríkt skref á sínum tíma, ég held að það hafi verið árið 1976 sem verðtrygging var sett á námslánin að frumkvæði menntamálaráðherra Framsóknarflokksins. Það er kannski kaldhæðnislegt í ljósi þess að sá flokkur keyrir nú um sveitir og boðar afnám verðtryggingar án þess að gefa okkur hinum nokkra hugmynd um með hvaða hætti það skuli gert. Vitanlega hefur það mikil áhrif á endurgreiðslur námslána að þau skuli vera verðtryggð og rétt að árétta að það er með námslán eins og húsnæðislánin, stóra lausnin á þeim vanda felst vitanlega í því að koma okkur yfir í stöðugan gjaldmiðil. Verðtrygging væri ekki til nema af því að við erum með gjaldmiðil sem nýtur ekki trausts á fjármálamörkuðum og menn telja sig þurfa sérstakar skaðabætur fyrir það að sýsla með þennan gjaldmiðil. Þær skaðabætur heita verðtrygging.

Ég fagna þessu frumvarpi og veit að félagar mínir í allsherjar- og menntamálanefnd munu leggja sig alla fram um að vinna þetta mál vel hér eftir sem hingað til.