141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[12:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi. Jafnframt tek ég undir áhyggjur nokkurra þingmanna sem hér hafa talað í dag af því hvað málið kemur seint fram. Það er vissulega áhyggjuefni að svo mikilvægt mál skuli ekki hafa náð til þingsins hraðar en það raunverulega gerði.

Það er að mínu mati alltaf fagnaðarefni, frú forseti, þegar lögð eru fram mál í þinginu sem miða að því að bæta og styrkja það jöfnunarkerfi sem námslánakerfið er og skjóta þar með styrkari stoðum undir það velferðarkerfi og velferðarsamfélag sem við viljum öll búa í.

Það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem ég tel afar mikilvæg og hæstv. ráðherra kom inn á í máli sínu. Þær lykilbreytingar sem ráðherrann nefndi, til að mynda að hluti af námsláni yrði með viðunandi námsframvindu breytt í styrk, eru mjög athyglisverður og góðar. Það er hins vegar spurning, eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom inn á áðan, hvort eigi að kalla þetta styrk eða ívilnun. Þarna er í rauninni ekki um styrk að ræða heldur frekar niðurfellingu eða nokkurs konar ívilnun. Það mætti kannski breyta því orðalagi.

Einnig í sambandi við námsstyrkinn eða ívilnunina eða hvað við ákveðum að kalla þetta virðist fyrst og fremst hugað að annars vegar þriggja og hins vegar fimm ára háskólanámi. Nú eru, frú forseti, allnokkrar námsgreinar við innlenda háskóla og erlenda þar sem ekki er hægt að ljúka námi á skemmri tíma en sex árum og í stöku tilfellum lýkur hinu eiginlega námi ekki fyrr en að sjö árum liðnum. Það er spurning hvort ákvæði 12. gr. og jafnframt ákvæði 13. gr., um endurgreiðslur, þurfi ekki með einhverju móti að koma til móts við þetta því að það getur skipt verulegu máli að námsmönnum sé ekki mismunað með slíkum hætti. Það má hugsa sér einhvers konar aukaívilnanir til þess einmitt að hvetja fólk til að velja áfram námsgreinar þar sem má gera ráð fyrir að námið geti verið mjög langt.

Þá komum við að 13. gr. um endurgreiðslur. Nokkrir hv. þingmenn hafa nefnt það hér í dag að skynsamlegt gæti verið að velta fyrir sér hvort bjóða ætti upp á óverðtryggð lán eða bjóða upp á óverðtryggð lán að hluta. Ég held að það væri að minnsta kosti einnar messu virði, eins og stundum er sagt, að meta það í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hvort slíkt kæmi til álita.

Í 13. gr. 4 mgr. er kveðið á um, með leyfi forseta:

„Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli.“

Þetta ákvæði lætur ekki mikið yfir sér en hefur í gegnum tíðina valdið nokkrum deilum, til að mynda um hvenær námslok eru hjá námsmönnum sem halda utan í framhaldsnám. Því miður hafa stjórnir lánasjóðsins á hverjum tíma túlkað þetta með mismunandi hætti. Þannig hafa til dæmis flestir þeir sem hafa farið til framhaldsnáms í heilbrigðisgreinum verið taldir hafa lokið námi sínu þegar háskólanámi á Íslandi hefur lokið og þess vegna verið krafðir um að hefja endurgreiðslur strax tveimur árum síðar þrátt fyrir að í sumum greinunum sé eiginlegur námstími ekki búinn fyrr en í fyrsta lagi að einu ári liðnu eftir setu á skólabekk með kandídatsprófi, eins og í læknisfræði. Það er að vissu leyti ákveðið óréttlæti að menn afli mjög lítilla tekna eða séu jafnvel enn á námsstyrkjum og séu engu að síður krafðir um endurgreiðslu á lánunum. Þetta tel ég, frú forseti, að nefndin ætti að skoða.

Annað kemur jafnframt til greina. Sú breyting sem verður með þessum lögum að ábyrgðarmenn verði ekki lengur undir ábyrgð eftir að þeir ná 67 ára aldri er góð. Það er ágætt, frú forseti, en hins vegar ættum við sannarlega að meta hvort ætti að lækka eitthvað endurgreiðsluprósentuna þegar fólk kemur á lífeyrisaldur. Eins og lögin eru í dag og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi er miðað við 3,75% af tekjuskattsstofni frá árinu áður. Þetta getur verið afar erfitt fyrir fólk þegar það er að hefja lífeyristöku vegna þess að fyrsta árið eftir að það hefur lífeyristöku þarf væntanlega að greiða endurgreiðsluna á þessum sömu kjörum. Að mínu viti mætti skoða sérstaklega hvort það ætti ekki að minnsta kosti að vera lægri endurgreiðsluprósenta fyrsta árið eftir lífeyristöku til þess að mæta þeim breytingum sem verða á högum þessara einstaklinga. Það held ég að gæti verið afar skynsamlegt.

Ég vil jafnframt nefna hér að sú heimild sem ráðherra fær til sérstakra ívilnana, eins og kemur fram í 18. gr., er afar mikilvæg. Ég lít svo á að þetta ákvæði gefi ráðherra heimild til að veita ívilnanir í greinum þar sem skortur er á menntuðu fólki eða til að mynda til þess að mæta sjónarmiðum eins og þeim að fjölga körlum í hinum svokölluðu hefðbundnu kvennagreinum eða öfugt, að fjölga konum í hefðbundnum karlagreinum. Mér finnst að hv. allsherjar- og menntamálanefnd ætti að skoða þetta atriði sérstaklega.

Að lokum, frú forseti, langar mig aðeins að koma inn á þann mismun sem er í kostnaðaráhrifum frumvarpsins, annars vegar í mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins og hins vegar fjármálaráðuneytisins. Þarna munar nokkru. Af hálfu menntamálaráðuneytisins er talað um að þetta muni kosta eitthvað í kringum 2,3 milljarða en í mati fjárlagaskrifstofunnar er dreifðin á bilinu 3–4,7 milljarðar. Þá er í rauninni horft til þess að það gæti farið svo að stór hluti þeirra sem taka lán mundu nýta sér að klára nám sitt á „réttum tíma“ til þess að fá ívilnunina. Þá er til þess að líta að jafnvel þótt það yrði í meira mæli en við teljum nú gætum við ekki horft fram hjá ákveðinni þjóðhagslegri hagkvæmni af því að menn kláruðu nám sitt á sem stystum tíma og kæmu þá fyrr út á vinnumarkaðinn og gætu með nýja og góða menntun lagt til samfélagsins. Slíkt mundi vafalaust skila meiri árangri nettó út í samfélagið en sá munur sem er á tölunum þarna.

Ég mun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd taka fagnandi við þessu frumvarpi. Ég hlakka til að fást við þetta mál og vonast til þess að við komumst að minnsta kosti með það til 2. umr.