141. löggjafarþing — 94. fundur,  9. mars 2013.

gjaldeyrismál.

668. mál
[13:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er lagt fram er fyrst og fremst skilaboð um að hér er algjör pólitísk sátt um það og að hv. þingmenn, sama í hvaða flokki þeir eru, muni gera það sem þarf til að gæta hagsmuna Íslands í þessu stóra máli. Í því eru skýr skilaboð. Það er algjört forgangsmál að við losum okkur út úr þessum gjaldeyrishöftum, en það verður ekki gert nema við leysum þau stóru mál sem hér liggja undir og hafa í daglegu tali verið kölluð snjóhengjumál.

Þetta er annað markmiðið. Hitt markmiðið er að Seðlabankinn sitji ekki uppi með þá ábyrgð og það vald sem liggur undir þessum stóru ákvörðunum.

Ef þetta frumvarp nær fram að ganga verður Seðlabankinn að fá samþykki og hafa samráð við tvo ráðherra og kynna málið fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd áður en þessar stóru undanþágur verða veittar.

Ekkert er öruggt í þessu lífi, svo mikið vitum við, en það eru mun meiri líkur á að við náum farsælli lausn í þessu máli með því að samþykkja þetta frumvarp en að hafa óbreytt fyrirkomulag. Eftir stendur samt sem áður að ég vona og veit að þeir aðilar sem fara með þetta mikla vald, hvort sem um er að ræða Seðlabankann eða hæstv. ráðherra, verða meðvitaðir um þá miklu hagsmuni sem liggja undir. Við verðum að ganga þannig fram að við hvikum hvergi frá því markmiði að ná hér farsælli lausn fyrir íslenska þjóð.

Þetta mál er eitt það stærsta sem við höfum fjallað um á þessu kjörtímabili og þó höfum við þurft að taka á þeim mörgum mjög stórum.