141. löggjafarþing — 94. fundur,  9. mars 2013.

gjaldeyrismál.

668. mál
[13:41]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því mjög að þetta frumvarp er komið fram og að góð samstaða sé um að greiða götu þess hér og gera það að lögum í dag eins og er auðvitað ákaflega æskilegt þegar á ferðinni eru stór mál af þessu tagi sem hafa í sér fólgin veruleg tíðindi í fjármálaheiminum. Ég tel að þetta sé rétt, tímabært og í raun bráðnauðsynlegt skref. Þetta er í samræmi við niðurstöðu þverpólitískrar nefndar með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem fram kom í bréfi til formanna flokkanna um að nú væri rétt að grípa til þessara tvíþættu ráðstafana.

Þetta er til fyllingar lögunum sem sett voru hér í mars 2012, á síðasta ári. Þau voru gríðarlega mikilvæg eins og hér hefur þegar komið fram. Sú löggjöf var undirbúin af Seðlabankanum og þáverandi efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Það tókst sömuleiðis ágæt samstaða um afgreiðslu á þeim hér. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur tekið að sér að flytja þessi mál og gerir það í heild sinni þannig að það undirstrikar pólitíska samstöðu um þetta.

Ég tel að með þessum tvíþættu breytingum sé búið að ná eins vel utan um þetta mál og í raun er hægt og að stjórnvöld hafi nú í sínum höndum öll þau tæki sem þarf til þess að halda áfram aðgerðum við afnám gjaldeyrishafta og gæta þjóðhagslegra sjónarmiða í þeim efnum, tryggja að það geti gengið fram án þess að hætta sé tekin á því að stöðugleiki raskist um of, tryggja að það sé allt saman viðráðanlegt og eins hagstætt fyrir þjóðarbúið og mögulegt er. Til þess er mikilvægt að hafa þau tök á málinu sem þessi lagasetning í áföngum hefur nú búið til og það er ákaflega gæfuríkt að hafa um það pólitíska samstöðu. Ég þarf ekki að útskýra hvers vegna.

Þetta er stærsta einstaka aðgerðin fram undan og sem eftir er í efnahagslegri endurreisn Íslands. Það er gríðarlega mikið undir að þetta takist vel. Það er ánægjulegt að Alþingi sameinist um þessa aðgerð, að okkur á þingi og í stjórnmálunum takist þó það. Það mætti gerast í fleiri tilvikum en hér er þó ánægjulegt að sjá að allir gera sér grein fyrir alvöru málsins og leggja sitt af mörkum til að þessi tæki komist í okkar hendur.

Ég tel tvímælalaust rétt að framlengja heimild til að viðhafa það sem ég tel réttara að kalla fjármagnshöft eða höft á stórum fjármagnshreyfingum en gjaldeyrishöft og gera það með þeim hætti að lögin séu ótímabundin og háð framvindu og skilyrðum en ekki dagsetningum. Það eru rétt skilaboð og ég tek undir það með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að þetta eru líka skilaboð, mikilvæg skilaboð.

Hitt meginefni frumvarpsins er umgjörðin um reglusetningu Seðlabankans, hún er hér rækilega og vel völduð, m.a. með skírskotun til skuldastöðu þjóðarbúsins og efnahagslegra áhrifa. Það er mjög mikilvægt. Þar af leiðandi geta Seðlabankinn (Forseti hringir.) og þeir sem um þetta véla sett þau skilyrði inn í þær reglur sem þurfa að vera uppfyllt til að menn fái útgreiðslur.