141. löggjafarþing — 94. fundur,  9. mars 2013.

gjaldeyrismál.

668. mál
[13:48]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að við ætlum að sýna hér samstöðu í dag og samþykkja ótímabundin gjaldeyrishöft vil ég árétta nauðsyn þess að snjóhengjuvandinn verði leystur sem allra fyrst. Snjóhengjan ógnar nefnilega lífskjörum í landinu og lausnin sem verður fundin á þeim vanda þarf að tryggja sambærileg lífskjör hér á landi og í nágrannalöndunum. Annars eigum við von á fjölda landflótta fólks.

Í snjóhengjunni eru um 400 milljarðar af aflandskrónum og 800 milljarða eignir þrotabúanna í íslenskum krónum. Þetta fjármagn var fengið að láni til að fjármagna loftbólukaup útrásarvíkinganna. Í hruninu sprungu þessar loftbólur og því er engin greiðslugeta lengur fyrir snjóhengjunni. Með öðrum orðum getur íslenskt atvinnulíf ekki aflað erlendra útflutningstekna til að greiða snjóhengjuna niður. Almenningur getur heldur ekki tekið á sig lífskjaraskerðingu í formi lægra gengis krónunnar til að liðka fyrir örlitlu útstreymi snjóhengjunnar.

Virðulegi forseti. Það verður að skrifa þessar eignir verulega niður. Við eigum fyrst að reyna að fara samningaleiðina og hóta vogunarsjóðunum, sem reyndar eru hrægammasjóðir þar sem þeir hafa keypt kröfur sínar á þrotabúin á hrakvirði, að við munum annaðhvort skattleggja 1.800 milljarða erlendar eignir þeirra eða jafnvel bara skipta þeim yfir í íslenskar krónur. Jafnframt eigum við að hóta því að ef þeir vilja ekki skrifa niður þessar eignir sínar munum við einfaldlega taka upp nýjan gjaldmiðil og flytja eignir þeirra á töluvert lægra virði en þær eru nú í gömlu krónunni. Með öðrum orðum eigum við fyrst að reyna að fara samningaleiðina við þessa vogunarsjóði og hrægammasjóði með hótunum sem við raungerum ef þeir samþykkja ekki um 90% niðurskrift á eignum sínum.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að skrifa verulega niður eignirnar sem eru í snjóhengjunni, en það dugar ekki til vegna þess að í dag ógna nú þegar greiðslur eins og vaxtagreiðslur, arðgreiðslur og samningsbundnar greiðslur (Forseti hringir.) lífskjörum almennings þar sem þær veikja gengi krónunnar nú þegar greiðslubyrði innlendra aðila af erlendum lánum er afar þung.

Það er ekki nóg að skrifa snjóhengjuna niður um 90%, það þarf líka að leggja skatt á útstreymi fjármagns.